- Advertisement -

Fortíðin: Lögreglan laug á leigubílstjóra

- undarleg vinnubrögð á lögreglustöðinni við Hverfisgötu

„Mér brá óneitanlega í brún þegar mér var sýnd þessi lögregluskýrsla. Þar var nafn mitt, númer leigubifreiðar minnar og lýsing á bílnum. í skýrslunni var nákvæm útlistun á því hversu dónalegur ég hefði verið gagnvart þremur farþegum sem áttu að hafa ekið með mér aðfaranótt síðastliðins sunnudags,“ sagði Grímur A. Grímsson, leigubílstjóri hjá Hreyfli.

Gallinn við skýrslu þessa, sem gerð var af lögreglumanni í aðalstöðvum lögreglunnar við Hverfisgötu, er hins vegar sá að Grímur kom í raun réttri ekkert við þá sögu sem þar er sögð né heldur bifreið hans sem er græn Mercedes Benz skutbifreið. í skýrslunni sem ber heitið „ Framferði ökumanns leigubifreiðarinnar Y-5101 við farþega,“ segir meðal annars: „Á ofangreindum tíma kom ökumaður bifreiðarinnar Y-5101, sem er leigubifreið frá leigubifreiðarstöðinni Hreyfli, á lögreglustöðina við Hverfisgötu og óskaði lögregluaðstoðar við að fjarlægja þrjá farþega úr bifreiðinni. Var ökumaðurinn æstur mjög og sagðist ekki hafa tíma til að „rúnta“ með farþega á þessum mesta annatíma leigubíla, vildi hann einungis fólkið úr bifreiðinni en enga hjá því greiðsluna.

Farþegarnir…A, B og C… sátu hin prúðustu í leigubifreiðinni og ekki var hægt að merkja að þau væru undir áhrifum áfengis. Gerðum við þeim strax grein fyrir ósk leigubifreiðarstjórans og tóku þeir því vel.“

Þá er því lýst í skýrslu þessari þegar farþegarnir bjuggu sig undir að yfirgefa bifreiðina en eitthvað fannst bílstjóranum það ganga hægt þannig að hann veitti aðstoð sína óbeðinn. Kom til nokkurra ryskinga vegna þessa. Endaði þetta með því að bílstjórinn rauk upp í bíl sinn og brunaði á braut án þess að kveðja.

Þú gætir haft áhuga á þessum

„Ekki náðist að spyrja ökumanninn að nafni en hann var feitlaginn og skegglaus. Skráður eigandi bifreiðarinnar, Y-5101, sem er Mercedes Benz, station, græn að lit, er Grímur A. Grímsson, Réttarholtsvegi 81, Rvík, f. 270751, nnr. 2756-7754.“

Í samtali er DV hefur átt við umrædda farþega kom meðal annars fram að þeir bentu lögreglumanninum, er vann að skýrslugerðinni, kurteislega á að leigubifreiðin hefði verið af Peugeot-gerð, R-7011, frá BSR en ekki Mercedes Benz frá Hreyfli með Y-númeri. Sinnti lögreglumaðurinn í engu þessum ábendingum heldur fór sínu fram með skýrslugerðinni um Grím A. Grímsson, leigubílstjóra hjá Hreyfli, sem þá svaf sæll í rúmi sínu.

„Ég hef verið að reyna að fá botn í þetta og ég held að ég sé kominn með flesta spottana í hendurnar,“ sagði Guðmundur Hermannsson yfirlögregluþjónn aðspurður um vinnubrögð undirmanna sinna. „Svo virðist sem lögreglumaðurinn hafi ruglast lítillega þegar hann skráði niður númer leigubifreiðarinnar, skrifað R-7101 í stað R-7011 og síðar komist að því að engin leigubifreið er með því númeri. Hins vegar vissi hann af leigubifreið með númerinu Y-5101 og setti hana því í skýrsluna. Þetta er að sjálfsögðu mikil ónákvæmni í vinnubrögðum og leiðinlegt fyrir lögregluna, leigubílstjórann og farþegana. En við munum biðjast afsökunar; það er ekki um annað að ræða.“

(Úr DV, laugardaginn 8. febrúar 1986).


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: