„Flestir hafa gert ráð fyrir því að Guðrún Hafsteinsdóttir taki sæti í ríkisstjórn og Jón Gunnarsson hverfi úr henni, líkt og kynnt var þegar ríkisstjórnarsamstarfið var endurnýjað 2021 og Guðrún verið óþreytandi við að rifja upp í fjölmiðlum,“ segir í leiðara Moggans.
„Ekkert segir þó að það séu nákvæmlega þau ráðherraskipti, sem fram þurfi að fara, eða hin einu. Fleiri stólar eru við borðið og sjálfsagt að huga að því hvort þeir gætu verið betur skipaðir; hvar áhugi, þekking og hæfileikar hvers og eins nýtast best.
Ekki er t.d. sjálfgefið að Jón, sem reynst hefur dugandi í erfiðum málaflokki, fari úr ríkisstjórn þó Guðrún komi inn. Rætt um að Guðlaugur Þór Þórðarson kunni að hverfa til annarra starfa, hann brennur ekki fyrir verkefnum sínum og staða hans önnur eftir misheppnaða atlögu að formanninum,“ segir í málgagninu.
„Formaðurinn Bjarni Benediktsson gæti líka flutt sig um set, t.d. með því að skipta um hlutverk við Þórdísi Kolbrúnu Reykfjörð Gylfadóttur, en hafi hún ekki áhuga á fjármálaráðuneytinu má vel sjá fyrir sér flóknari ráðherrakapal. Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir er ljóslega framtíðarmanneskja, sem gæti tekið að sér veigamikið verkefni af því tagi, en eins gæti þingflokksformaðurinn Óli Björn Kárason gert það ef rými myndast við ríkisstjórnarborðið. Bjarni hefur þannig ýmsa kosti vilji hann ydda ráðherrahóp sinn.“
Mogginn spekúlerar um ráðherra hinna stjórnarflokkanna:
„En það má líka spyrja hvort aðrir forystumenn stjórnarinnar ættu ekki að huga að breytingum fyrr en síðar. Vinnumarkaðsráðherrann Guðmundur I. Guðbrandsson hefur t.d. sýnt af sér uggvænlega værukærð í aðdraganda erfiðrar kjaralotu og hugsanlega nytu hæfileikar Svandísar Svavarsdóttur sín betur þar. Sömuleiðis gæti Framsókn vilja endurhugsa lið og leikskipulag nú þegar þarf að spila vörn frekar en sókn.“
Og svo endar þetta svona:
„Veður hafa skipast í lofti og þyngri róður framundan. Áhöfnina þarf að miða við það og endurnýjað erindi.“