- Advertisement -

Auðvaldinu tókst að lokum að finna hina einu réttu

Öll nema „blaðamenn“ Morgunblaðsins sem ráfa um í klístrugu myrkri handónýtrar hugmyndafræði…

Sólveig Anna Jónsdóttir.

Sólveig Anna Jónsdóttir formaður Eflingar skrifaði:

Í Mogganum er umfjöllun um ráðningarferli Samtaka atvinnulífsins í leitinni að nýjum framkvæmdastjóra. Menn og konur hringdu mikið hvert í annað. Sum sögðu eitt og önnur annað. En íslensku auðvaldi tókst að lokum að finna hina einu réttu til að hringja eins oft og þurfa þykir í Seðlabankastjóra, forsætisráðherra og guð. Æsispennandi umfjöllunarefni innrammað af stílbrögðum blaðamanns.

Ég geri engar athugasemdir við söguna af símtölunum. En verð þó að gera athugasemd við eftirfarandi málsgrein í hinni svokölluðu frétt: „Flestir gera sér grein fyrir því að fram undan er erfiður vetur, þar sem verðbólga og stýrivextir daðra við tveggja stafa tölu, forysta margra verkalýðshreyfinga er herská og ekki endilega tilbúin til að setjast að samningaborðinu til að taka málefnalega umræðu um kaup og kjör.“ Ég gef mér að þarna sé m.a. átt við hina alræmdu forystu Eflingar, vopnum búna, vígtennta og ævinlega þyrsta í burgeisablóð í Grýlu-sögum Hádegismóa.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Vissulega er andúð forystunnar á arðráni og þeirri þjóðfélagsskipan sem að arðráns-kerfið útbýr mikil og heit. En það er alrangt að ekki sé sest við samningsborðið til að takast þar á með málefnalegum hætti um „kaup og kjör“. Frá því að Efling stéttarfélag, fram að því mikilvægasta vígi samræmdrar láglaunastefnu á landinu, féll í hendur herskárra meðlima stéttar vinnuaflsins árið 2018, Morgunblaðinu og öðrum málsvörum stéttskiptingar og misskiptingar til agalegs ama en harmkvæli reykvískrar borgarastéttar vegna þeirra atburða og afleiddrar atburðarásar hafa borist um samfélagið meira og minna non-stop í nú hálfan áratug, hefur forysta Eflingar ávallt verið tilbúin til að setjast að samningaborðinu til að eiga þar upplýsta og málefnalega umræðu. Ávallt rökstutt málflutning félagsins með gögnum og staðreyndum úr efnahagslegum veruleika þjóðfélagsins og aldrei skorast undan því að útskýra hann fyrir öllum þeim sem að tilbúnir eru að hlusta. Þetta er einfaldlega staðreynd sem að enginn getur neitað.

Eða réttara sagt, enginn ætti að geta neitað, en eins og þekkt er eru þau hugmyndafræðilegu sjóngler sem að fólkið sem vinnur hjá Morgunblaðinu gengur með svo hræðilega léleg og rispuð að þau minna helst á bölvun úr gamalli sögu: „Þá komu dúfurnar og festu á þau sjóngler vond. Urðu þá sjáöldur þeirra klístruð mjög og engin skýrleiki komst þar inn en upp varð niður og svart að hvítu og rákust þau á og duttu um koll til æviloka, öllum til óyndis og óánægju.“ Í „ævintýrahöllinni“ Hádegismóum er ekkert sjálfsagðara né oftar gert en að afneita staðreyndum.

En vissulega eru til „aðilar“ sem að ekki hafa viljað setjast að samningaborðinu til að taka þar hina málefnalegu umræðu um kaup og kjör. Hverjir eru það? Jú, það er forysta sjálfra Samtaka atvinnulífsins! Hún var svo staðráðin í að setjast ekki að samningaborðinu að hún vildi frekar særa fram verkbann á 20.000 Eflingar-meðlimi og opinbera endanlega með því ofstæki sitt, getu og viljaleysi í málaflokknum Kjarasamningar við vinnuaflið. Við öll munum þá ljótu og leiðinlegu sögu. Öll nema „blaðamenn“ Morgunblaðsins sem ráfa um í klístrugu myrkri handónýtrar hugmyndafræði, farandi stöðugt með ósannindi og fleipur, föst í aumkunarverðum álögum við að halda uppi um allsbera keisarann buxunum sem að eru ekki til og dettandi í alla drullupolla sem að á vegi þeirra verða.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: