Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, skrifaði:
Kostulegt er að lesa viðtal dagsins við seðlabankastjóra í Morgunblaðinu. Þar er seðlabankastjórinn á heimavelli meðal vina sinna og verndara úr röðum auðstéttarinnar, er slakur og óvar um sig, og lætur margvísleg gaspuryrði falla.
Hann greinir þar frjálslega frá efni símtala sinna við aðra embættismenn, sem hann telur nú óhætt að sverta enda þeir horfnir á braut. Hann dylgjar um persónur nafngreindra einstaklinga sem hafa andmælt stefnu Seðlabankans og hann á þess vegna sökótt við.
Þá ræða hann og blaðamaður á gáskafullan hátt um það hvort að hóprefsingar Seðlabankans gegn landsmönnum hafi leitt til þess að ýmsir einstaklingar sem seðlabankastjórinn lítur niður á hafi „skilið“ hitt og þetta um gang tilverunnar. En augljóslega skilja þessir vesalingar jú aldrei neitt og hey, búið ykkur því undir frekari hóprefsingar, vesalingar.
Á sama tíma og hinn mikli stjóri eys úr skálum fyrirlitningar sinnar yfir alla þá sem hann telur sér ósamboðna, ýmist sökum skorts þeirra á „skilningi“ eða persónulegra sjúkleika sem stjórinn gáfaði hefur greint í þeirra fari af mikilli þekkingu sinni, þá spyr hann sig aldrei þeirrar spurningar hvort að hans eigin framganga og ummæli séu samboðin þeim kröfum sem hugsanlega mætti gera í lýðræðisríki til æðsta og valdamesta embættismanns landsins. Slíkt hvarflar ekki að honum, enda er það hin náttúrulega skipan mála í hans huga að hann dæmi aðra, skipi þeim fyrir og gefi einkunnir, en ekki öfugt. Í hugarheimi stjórans erum við, almenningur í landinu, algjörlega skilningsvana fífl og það eru einnig leiðtogar okkar sem við höfum dirfst að velja fyrir atbeina skítugs lýðræðisins. Við erum öll heimsk, við erum óstöðug í skapi, við vitum ekki hvað við viljum, þegar við mótmælum þá erum við í raun bara að mótmæla sjálfum okkur, heimskir smábændur með ryðgaðar heykvíslar í hönd.
Þegar Seðlabankastjóri tjáir sig þá er raunar líkt og við stígum um borð í tímavél, við yfirgefum lýðræði nútímans og leikreglur stjórnsýslu og embættismannakerfa – við erum þess í stað komin í einhvers konar einveldi miðalda, heim valdhroka og yfirlætis á skala sem við höfum kannski einna helst fengið nasasjón af í þáttum á borð við Game of Thrones.
Góðir landsmenn, ég hvet ykkur til að lesa viðtal Morgunblaðsins við Ásgeir Jónsson Seðlabankastjóra til að fá þar innsýn í veröld íslensku borgarastéttarinnar, þar sem hún ríkir ásamt hirð sinni og hirðfíflum.