- Advertisement -

Árni Johnsen fór sjaldnast troðnar slóðir

Birgir Ármannsson þingforseti minntist Árna Johnsen á Alþing í dag. Birgir sagði:

„Árni Johnsen, fyrrverandi alþingismaður og blaðamaður, andaðist á Sjúkrahúsinu í Vestmannaeyjum þriðjudaginn 6. júní síðastliðinn eftir langvarandi veikindi. Hann var 79 ára að aldri.

Árni Johnsen var fæddur í Vestmannaeyjum 1. mars 1944. Foreldrar hans voru Ingibjörg Á. Johnsen kaupkona og Poul Kanélas frá Bandaríkjunum, en fósturfaðir hans var Bjarnhéðinn Elíasson, skipstjóri og útgerðarmaður í Eyjum.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Naut Árni vinsælda í kjördæmi sínu…

Árni lauk prófi frá Kennaraskóla Íslands 1966 og átti eftir það stuttan kennsluferil í Vestmannaeyjum og Reykjavík en var jafnframt starfsmaður í Surtsey við gæslu og rannsóknir nokkur sumur. Hann var blaðamaður við Morgunblaðið á árunum 1967–1991 og fékkst einnig á þeim tíma við dagskrárgerð í útvarpi og sjónvarpi. Árni varð snemma þjóðþekktur sem tónlistarmaður og af störfum sínum við fjölmiðla og lét víða að sér kveða, ekki síst í málefnum Vestmannaeyja eftir að eldsumbrot hófust þar 1973 og í þeim eftirmálum sem af þeim leiddi.

Þingferill Árna Johnsens hófst árið 1983 er hann náði kjöri af framboðslista Sjálfstæðismanna í Suðurlandskjördæmi og lauk 2013, með tveimur hléum þó, kjörtímabili í hvort sinn. Naut Árni vinsælda í kjördæmi sínu og var efstur á lista Sjálfstæðisflokksins þar í kosningunum 1999. Á þremur þingum sat hann sem varamaður og samtals á 27 löggjafarþingum alls. Hann átti lengst sæti í fjárlaganefnd, samgöngunefnd og menntamálanefnd. Þá var hann í Vestnorræna þingmannaráðinu og formaður þess um tíma.

Árni sat í ýmsum opinberum nefndum og átti hlut að fjölda verkefna á snærum opinberra aðila og félagasamtaka enda átaksmaður við slíkar aðstæður. Hann vann einnig af mikilli elju fyrir kjördæmi sitt, ekki síst heimabæinn, og kom þar mörgu verki vel fram.

Árni Johnsen átti sterkar rætur í Vestmannaeyjum og unni þeim stað og því samfélagi. Hann var íþróttamaður á yngri árum og félagslyndur alla tíð. Hann náði greiðlega til almennings, fyrst með blaðagreinum og þáttum í ljósvakamiðlum og síðar í bókum og bókarköflum sem eftir hann liggja. Hann samdi tónlist, söng og lék eigin lög og annarra og kom fram við ýmis tækifæri. Árni Johnsen fór sjaldnast troðnar slóðir á ævigöngu sinni. Hann var umdeildur en um leið vinmargur og um dugnað hans, einurð og atorku efuðust fáir.“


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: