- Advertisement -

„Mikið var gert úr engu“

Það var formannaslagur á Alþingi þegar Kristrún Frostadóttir formaður Samfylkingar spurði Bjarna Benediktsson formann Sjálfstæðisflokks um aðgerðir ríkisstjórnarinnar, ekki síst í húsnæðismálum. Margt kom fram í umræðum þeirra eins og lesa má hér að neðan:

„Þegar hæstvirt ríkisstjórn hafði stór orð um það í vetur að nú ætti loksins að ráðast í aðgerðir gegn verðbólgunni kom á daginn að mikið var gert úr engu, aðeins ein aðgerð sem var kynnt átti að taka gildi á þessu ári. Það var lækkun á endurgreiðslu virðisaukaskatts vegna framkvæmda við íbúðarhúsnæði úr 60% í 35%, sem á að taka gildi núna um mitt ár,“ sagði Kristrún Frostadóttir, formaður Samfylkingarinnar.

„Þetta felur vissulega í sér ákveðið aðhald á ríkisfjármálahliðinni, en þetta hægir um leið á uppbyggingu húsnæðis og vinnur m.a. gegn markmiði hæstvirtrar ríkisstjórnar um uppbyggingu á hagkvæmum íbúðum, markmiðum sem eru reyndar víðs fjarri því að nást. Við sjáum skýr merki um samdrátt í húsnæðisuppbyggingu í nýjustu hagtölum, enda bætist þetta allt saman ofan á hækkun vaxta og hækkun á ýmsum kostnaði. Þannig að, virðulegi forseti, það eina sem hæstvirt ríkisstjórn gat og getur komið sér saman um til að ná og taka á verðbólgunni núna er að grípa til aðgerða sem draga úr hvata til húsnæðisuppbyggingar.

Það bítur í skottið á sér því að hömluleysi á húsnæðismarkaði er í dag bæði rót verðbólgu og helsta ástæðan fyrir ólgu á vinnumarkaði. Þetta höfum við í Samfylkingunni ítrekað bent á. Við höfum kallað eftir markvissum aðgerðum til að taka á verðbólgunni og til að verja heimilisbókhaldið. Við höfum biðlað til hæstvirtrar ríkisstjórnar um að beita aðhaldinu þar sem þenslan er í raun og veru, og hörfa ekki frá íbúðauppbyggingu og við höldum áfram að leggja til lausnir.“

Þú gætir haft áhuga á þessum

Síðan sagði Kristrún:

Ég vil því kanna hug hæstvirts fjármálaráðherra til eftirfarandi tillögu: Ívilnun til uppbyggingar. Að húsnæðisfélög án hagnaðarsjónarmiða, eins og t.d. Bjarg, íbúðafélag, og aðrir uppbyggingaraðilar í almenna íbúðakerfinu, fái áfram ívilnun með 60% endurgreiðslu á virðisaukaskatti svo húsnæðismarkmið hæstvirtrar ríkisstjórnar færist ekki enn fjær. Þetta er hugmynd sem stjórnarþingmenn hafa skrifað um í greinum. Gætum við mögulega náð saman um þetta: Ívilnun til uppbyggingar á almennum íbúðum?“

Boðum frekari aðgerðir

Þvert á móti hefur Samfylkingin í Reykjavík fyrst og fremst verið að beita sér fyrir þéttingarstefnu.

„Ég verð nú fyrst að bregðast við þessum stóru orðum um að ríkisstjórnin hafi skilaði í raun og veru bara auðu í þeim aðstæðum sem eru uppi og rifja það upp að núna um áramótin hækkuðum við bætur almannatrygginga um 9% ofan á 7,4% hækkun í fyrra, við hækkuðum frítekjumark atvinnutekna örorkulífeyrisþega um áramótin um helming, upp í 200.000 kr., húsaleigubætur voru hækkaðir um fjórðung frá miðju síðasta ári og tekjumörkin hækkuð, eignamörk voru hækkuð í vaxtabótakerfinu um 50%. Barnabótakerfinu var breytt og fært yfir í samtímagreiðslur og greiðslur hækkaðar, fleiri njóta bóta. Persónuafsláttur hækkaði um 10,7% um áramótin. Þetta var að gerast núna í janúar á þessu ári. Þar fyrir utan já, þá lögðum við fram fjármálaáætlun þar sem við aukum aðhaldið og bætum afkomuna. Við boðum frekari aðhaldsaðgerðir í opinbera rekstrinum, setjum aukið aðhald á Stjórnarráðið og ætlum áfram að vinna að bata í ríkisfjármálunum þannig að þau haldi áfram að styðja við markmið um lækkandi verðbólgu. Þannig að það er alrangt þegar sagt er að það sé ekki neitt í gangi,“ svaraði Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins.

„Ein aðgerðin sem við höfum lagt til við þingið er að draga úr endurgreiðslum vegna nýbygginga og viðhalds á íbúðarhúsnæði og það er aðgerð sem m.a. tengist því að eins og hlutirnir stóðu núna á fyrsta ársfjórðungi þessa árs þá var mjög mikill kraftur í uppbyggingu nýrra íbúða og framlegðin af byggingu íbúðarhúsnæðis hefur verið mjög há. Hvort það kemur til greina að undanskilja þennan hluta íbúðamarkaðarins — ég er alveg til í að hugsa það og það getur vel verið að það geti gagnast fyrir þennan hluta. En það er fleira sem myndi gagnast fyrir þennan hlut, t.d. ef Reykjavíkurborg myndi skila lóðum til þess að það væri hægt að byggja slíkar íbúðir. Síðast í dag þá sjáum við fréttir af því að Reykjavíkurborg er ekki að greiða fyrir hugmyndum um að stórauka framboðið af ódýru húsnæði í borginni, á höfuðborgarsvæðinu. Þvert á móti hefur Samfylkingin í Reykjavík fyrst og fremst verið að beita sér fyrir þéttingarstefnu sem er allt annað heldur en að tryggja mikið framboð á ódýru húsnæði,“ sagði Bjarni.

Reykjavík hefur verið í forystu

Reykjavíkurborg hefur verið í forystu þegar kemur að uppbyggingu almenna íbúðakerfisins. 

„Hæstvirt ríkisstjórn er sem sagt að virða 69. gr. laga um almannatryggingar um að verðbæta örorkubætur. Hún setti ekki á neina leigubremsu þannig að húsnæðisbæturnar sem voru hækkaðar leka út í leiguverð. Barnabætur, eftir þær breytingar sem voru gerðar hjá ríkisstjórninni, eru enn þá í algjöru lágmarki miðað við landsframleiðslu sögulega séð og á Norðurlöndunum. Ég ætla ekki að gera lítið úr því að það var ákveðið skref stigið en það er augljóslega ekki nóg að gert. Ég fagna því hins vegar að hæstvirtur fjármálaráðherra taki vel í hugmynd okkar Samfylkingarinnar um að undanskilja almenna íbúðakerfið frá þessari lækkun. Mig langar að nýta tækifærið til að spyrja hæstvirtan fjármálaráðherra hvort það komi til greina að bæta við fjárveitingu almennt inn í uppbyggingu og stofnframlög í almenna íbúðakerfinu, eins og stendur núna í fjármálaáætlun, í ljósi þess að rammasamningurinn, til að mynda við Reykjavíkurborg sem er eina sveitarfélagið sem hefur klárað slíkan rammasamning, gerir ráð fyrir miklu meiri fjármögnun. Mér ber skylda til að nefna í því samhengi, hæstvirtur forseti, að Reykjavíkurborg hefur verið í forystu þegar kemur að uppbyggingu almenna íbúðakerfisins. Fjórar af hverjum fimm íbúðum sem hafa verið byggðar hér á landi hafi átt sér stað í uppbyggingu í Reykjavík,“ sagði Kristrún.

Ísland í forystu með stuðning við barnafólk

Þar munar kannski hvað mestu um leikskólann en reyndar eru leikskólamálin í ólestri hér í höfuðborginni.

„Vandinn varðandi almennu íbúðirnar er ekki sá að það hafi ekki verið tryggð fjármögnun frá ríkinu. Það hefur skort lóðir fyrir húsnæðið. Það hefur þess vegna verið meira á ábyrgð sveitarfélaganna að ganga í takt við þær áherslur sem ríkisstjórnin hefur verið að setja á oddinn. Ég verð aðeins að bregðast við því sem sagt er hér um barnabótakerfið, að það sé ófullnægjandi. En nýlegar úttektir á þessu, t.d. skýrsla frá Axel Hall sem kom út þegar við breyttum tekjuskattskerfinu á sínum tíma sýndi það mjög skýrt að stuðningur á Íslandi við fjölskyldur, við barnafólk, er einna bestur, ef við myndum bera okkur saman við Norðurlöndin, í öllu samhengi. Þar munar kannski hvað mestu um leikskólann en reyndar eru leikskólamálin í ólestri hér í höfuðborginni,“ svaraði Bjarni og hélt áfram:

„Það er spurning hversu langt við eigum að ganga með því að fjármagna uppbyggingu nýrra íbúða í gegnum Húsnæðissjóð, hafandi í huga að þegar við gerðum grundvallarbreytingar á Íbúðalánasjóði á sínum tíma vorum við að beina honum fyrst og fremst inn í félagsleg húsnæðisúrræði. Ég er sammála því að við þurfum að tryggja að nægilegt fjármagn verði til staðar. En við getum ekki verið með opinn reikning þannig að í hvert sinn sem félögin geta ekki fundið ásættanlega fjármögnun úti á markaðnum þá eigi ríkissjóður alltaf að koma og veita bestu kjör.“


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: