„Það eru erfiðir tímar hjá mörgum í skugga hárrar verðbólgu og vaxta, ástand sem því miður sér ekki fyrir endann á. Ríki og sveitarfélög fara ekki varhluta af þessu beint í kjölfar kórónuveirufaraldursins sem hafði verulega íþyngjandi áhrif á reksturinn. Á svona tímum væri óskandi að stjórnmálamenn, bæði núverandi og fyrrverandi, reyndu að hemja þórðargleði sína yfir ástandinu í stað þess að ýkja hana eins og hugmyndaauðgin og orðaforðinn ræður við,“ sagði Hanna Katrín Friðriksson.
„Líkt og aðrir kjörnir fulltrúar Alþingis ver ég stórum hluta af tíma mínum í að greina ríkisreksturinn og hvaða úrbætur eru í boði. Ég veit að slæma stöðu má rekja bæði til hagstjórnarmistaka stjórnvalda og til ytri aðstæðna, veit að það er fleiri en ein leið til að bregðast við og þær falla ólíkum hagsmunaaðilum mismunandi vel í geð. Þó að ég geti verið hvöss í gagnrýni minni á aðgerðir og aðgerðaleysi ríkisstjórnarinnar, þá þyrfti heldur betur ýmislegt að ganga á áður en ég færi þá leið að fullyrða með gífuryrðum að pólitískir mótherjar hefðu sett ríkissjóð á hausinn, að Ísland væri gjaldþrota og það væri ekkert annað eftir fyrir okkur en að slökkva ljósin og flýja land,“ sagði Hanna Katrín og svo þetta:
„Það er dapurlegt að fylgjast með sumum pólitískum andstæðingum borgarstjórnar sem virðast líta á borgarbúa sem leikmuni fyrir fýlupoka með fortíðarþrá. Sem betur fer falla kjósendur í Reykjavík ekki fyrir þessu. Skoðanakannanir sýna að þeir vilja ekki órökstudd gífuryrði og annað kjaftæði. Eins og tölulegar staðreyndir sýna er staðan í fjármálum Reykjavíkur ekki eins slæm og í flestum nágrannasveitarfélögum, en þær sýna líka að það þarf að gera betur fyrir Reykvíkinga. En umfram allt eiga Reykvíkingar þó skilið að málsmetandi fólk hætti að tala borgina niður við öll tækifæri og láti sig á þeirri vegferð engu skipta hvað er rétt og hvað er rangt.“