Hrikaleg staða er að verða til í efnahagsmálum. Lítið fer fyrir lausnum hjá Bjarna Benediktssyni efnahagsráðherra né öðrum ráðherrum. Því miður. Það er sem þau skilji ekki stöðu almennings sem horfir fram á angist. Afborganir eru óviðráðanlegar og höfuðstóll verðtryggðra lána snarhækkar, dag frá degi. Ekki bólar á neinum lausnum.
„Þingflokkur Samfylkingarinnar hefur farið fram á það við forseta að umræða um efnahagsmál verði sett á dagskrá þingfundar sem fyrst. Það eru nokkrir dagar eftir af þinginu. Nú sjáum við vexti í tæpum 9% og 10% verðbólgu og það þarf ekki fleiri fundi í þjóðhagsráði eða að bíða eftir niðurstöðum húsnæðishóps til að átta sig á því að ráðast þarf í aðgerðir sem taka gildi nú á næstu vikum. Við getum ekki beðið eftir niðurstöðu fjármálaáætlunar fyrir árið 2024 til að bregðast við ástandinu,“ sagði Kristrún Frostadóttir formaður Samfylkingarinnar.
„Til hvers er ríkið ef það er ekki til að bregðast við ástandi sem þessu, til að dreifa högginu af því áfalli sem nú stendur yfir? Og við í Samfylkingunni erum boðin og búin að styðja allar þær tillögur sem berast til þess að styrkja ungt fólk, lágtekjufólk, barnafjölskyldur, sem eru að fá þetta í fangið núna. Það eru þingmál sem geta komið inn í þingið þar sem við getum tekið á þessu ástandi og það munum við styðja. Ég vona að hæstvirtur forseti verði við beiðni okkar um umræðu um þessi mál áður en þinginu lýkur og að við fáum aðgerðir.“
„Forseti vill geta þess að beiðni af þessu tagi kom fram af hálfu þingflokks Samfylkingarinnar núna í dag. Hyggst forseti bregðast við því með því að skipuleggja slíka umræðu á næsta þingfundardegi sem gæti þá verið næsta þriðjudag og mun eiga samráð við þingflokksformenn um fyrirkomulag þeirrar umræðu,“ sagði þingforsetinn Birgir Ármannsson.