Kristrún Frostadóttir, formaður Samfylkingarinnar, er í löngu viðtali í Mogga morgundagsins. Hún hrósar ekki Bjarna Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra og formanni Sjálfstæðisflokksins. Viðtalið er langt. Á einum stað spur blaðamaður Moggans:
Hvað mun breytast á fjórum árum ef þú kemst í ríkissstjórn og verður hugsanlega forsætisráðherra?
„Margt af því sem ég vil að Samfylkingin geri mun ekki eiga sér stað á fjórum árum. Mér fannst ekki margt breytast með tilkomu Vinstri-grænna í þessa ríkisstjórn og varðandi breiðu línurnar í fjármálum og efnahagsmálum, þá breyttist ekki mikið. Við erum búin að vera með sama fjármálaráðherra í yfir áratug, og það hefur haft mikil áhrif á samfélagið. Það mun taka áratug að snúa aftur á rétta braut. Ég er ekki byltingarsinnuð og sagan sýnir að það borgar sig ekki að boða til byltingar, það er hins vegar hægt að taka hæg en örugg skref í ákveðna átt.
Það þarf að endurskoða hvernig við fjármögnum velferðarkerfið. Þá er ég að tala um heilbrigðiskerfið, fjármögnun sem fer í uppbyggingu á húsnæði og stuðning við opinber húsnæðisúrræði. Þetta eru kostnaðarsöm úrræði. Það kostar til að mynda mjög mikið að bæta starfsaðstæður og mönnun í heilbrigðiskerfinu eða efla almannatryggingar. Það þarf að endurskoða skattkerfið að hluta til og það þarf að byrja í fjármálaráðuneytinu og endurskoða tekjuhliðina því stór ástæða þess að við erum með halla á ríkissjóði er ekki bara útgjaldavandi heldur tekjuvandi. Ef maður skoðar fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar þá verða tekjur ríkissjóðs undir lok fjármálaáætlunar, miðað við þrjátíu ár þar á undan, með lægsta móti sem hlutfall af landsframleiðslu.
Í nútímasamfélagi eru gerðar miklar kröfur til velferðarþjónustunnar. Einstaklingar sem búa við fötlun verða að fá þjónustu við hæfi, ung börn eiga að fá fyrsta flokks þjónustu og við verðum að veita góða geðheilbrigðisþjónustu. Þetta kostar pening. Það er ekki eðlilegt að við séum að reka hagkerfi á minni tekjum miðað við það sem áður var.
Það hafa ekki orðið almennilegar breytingar á fjármálahliðinni í langan tíma. Ég hræðist engan veginn umræðu um fjármögnun, sem þarf að vera sanngjörn og réttlát.
Efnahagshliðin er grundvallarforsenda trúverðugleika í velferðarmálum. Þetta mikla vald sem er í fjármálaráðuneytinu hefur áhrif á alla velferðarpólitíkina í núverandi ríkisstjórn vegna þess að engu er komið í verk í heilbrigðisráðuneytinu ef fjármálaráðuneytið styður það ekki.“