Þar sem fólk hefur hvorki til hnífs né skeiðar
Þuríður Harpa Sigurðardóttir, formaður Öryrkjabandalagsins, skrifaði:
Stórkostlegri ráðstefnu NNDR Nordic network on disability research lauk í gær. Þar komu nær 750 einstaklingar saman allstaðar að úr heiminum til að fjalla um fötlunarrannsóknir. Ráðstefnan fór fram á Grand hóteli, Hilton hóteli og í húsakynnum ÖBÍ. Það var magnað að upplifa þann mikla áhuga og fókus sem er á fötlunarmál. Fögnum margbreytileikanum, samfélagið er okkar allra og öll eigum við sannarlega rétt á sjálfsögðum mannréttindum.
Í dag mætti ég á Austurvöll, þar var fólk hvatt til að RÍSA UPP gegn því efnahagslega og félagslega óréttlæti sem nú ríkir. Þar sem fólk hefur ekki til hnífs eða skeiðar, þar sem húsnæðiskostnaður og leiguverð er í hæstu hæðum og fólk á ekki fyrir leigunni né getur borgað af húsnæðisláninu! Staðan er alvarleg. AGS sagði í vikunni að Ísland yrði að verja tekjulægstu hópana. Það þarf að gera, það þarf að hækka húsnæðisstuðning, hækka lífeyri almannatrygginga, taka út skerðingar á framfærsluuppbót vegna atvinnutekna, hækka barnabætur og vaxtabætur og setja inn leigubremsu. Það þarf að byggja meira og bjóða öruggt húsnæði á viðráðanlegum kjörum. Það eru örugglega til leiðir til að bæta stöðu þeirra sem verst standa, jafna kjör og innleiða réttlæti í okkar samfélag.