Að fara fram með hótunum um lagabreytingar ef lífeyrissjóðir víki ekki frá stjórnarskrárvörðum réttindum sinna sjóðfélaga og ætla þannig að breyta leikreglunum eftir á er með öllu óviðunandi og setur hættulegt fordæmi sem réttilega ber að varast.
Hjörleifur Arnar Waagfjörð er forstöðumaður eignastýringar fagfjárfesta, Arion banka. Arnaldur Loftsson er framkvæmdastjóri Frjálsa lífeyrissjóðsins. Snædís Ögn Flosadóttir er framkvæmdastjóri EFÍA og LSBÍ og rekstrarstjóri Lífeyrisauka skrifa grein í Mogga dagsins. Hér verður gripið niðri í greininni.
„Eitt af hlutverkum lífeyrissjóða samkvæmt lögum er að standa skil á verðtryggðum lífeyrisgreiðslum sjóðfélaga til framtíðar. Skuldabréf líkt og þau sem útgefin eru af ÍL-sjóði, sem áður hét Íbúðalánasjóður, hafa eðlislæga kosti sem falla vel að því hlutverki. Þau eru verðtryggð, ekki er heimilt að greiða bréfin hraðar upp en samningsbundnir gjalddagar segja til um og þau eru með langan endurgreiðsluferil sem fellur vel að skuldbindingum lífeyrissjóða. Þá vegur ekki síður þungt að hingað til hafa fjárfestar getað treyst því að íslenska ríkið standi við sínar skuldbindingar sama á hverju hefur gengið síðustu árin,“ segir í upphafi greinarinnar.
Lokakafli greinarinnar er svona:
„Því skal haldið til haga að frá því í október 2022 hafa fulltrúar lífeyrissjóðanna sannarlega átt samtöl við fulltrúa ríkisins. Frá upphafi hefur það verið og er ófrávíkjanleg krafa lífeyrissjóðanna, í samræmi við lögbundnar skyldur, að í öllum tilvikum komi til fullra efnda skv. skilmálum skuldabréfanna af hálfu íslenska ríkisins. Fulltrúar ráðuneytis hafa ekki komið til móts við þessar kröfur og af þeim sökum hefur ekki verið talinn grundvöllur fyrir samningaviðræðum af hálfu lífeyrissjóðanna.
Í samráðsgátt stjórnvalda í lok mars síðastliðins var birt áformaskjal fjármála- og efnahagsráðuneytis um lagasetningu um slit og uppgjör ÍL-sjóðs. Slíkt skjal er undanfari frumvarps til laga. Lífeyrissjóðirnir hafa í sameiningu falið LOGOS lögmannsþjónustu að koma á framfæri umsögn við áform ráðherra og eru lesendur hvattir til að kynna sér þau skrif ásamt öðrum umsögnum.
Það dylst ekki nokkrum manni sem skoðað hefur viðfangsefnið að staða ÍL-sjóðs er þungbær. Í þeim efnum er hins vegar ekki við neinn annan að sakast en ríkið sjálft. Að fara fram með hótunum um lagabreytingar ef lífeyrissjóðir víki ekki frá stjórnarskrárvörðum réttindum sinna sjóðfélaga og ætla þannig að breyta leikreglunum eftir á er með öllu óviðunandi og setur hættulegt fordæmi sem réttilega ber að varast. Tapinu verður ekki velt frá ríkinu yfir á sjóðfélaga lífeyrissjóða.“