- Advertisement -

Minni verðmunur milli hverfa

Þjóðskrá Íslands hefur birt tölur um verð á fjölbýli í hverfum á höfuðborgarsvæðinu árið 2016. Á árinu 2016 var hæsta meðalfermetraverð á fjölbýli á höfuðborgarsvæðinu 469 þús. kr. í miðborg Reykjavíkur og það lægsta 275 þús. kr. í Vöngum í Hafnarfirði. Þarna er rúmlega 70% munur sem er svipað og 2015 sem var aftur lækkun frá 2014, en það ár var munurinn á milli dýrasta og ódýrasta hverfis í sögulegu hámarki.

Þetta kemur fram á síðu greiningardeilar Landsbanka Íslands.

Miðlæg svæði í Reykjavík, Seltjarnarnes og Garðabær eru dýr

Eins og áður segir var fermetraverðið hæst í miðborginni árið 2016, eða um 7% hærra en næsta hæsta hverfið. Árið áður var miðborgin rúmlega 11% hærri en næsta hverfi og 14% árið þar á undan. Sé litið á næst hæstu hverfi eru Sjáland í Garðabæ, Seltjarnarnes og miðlæg svæði í Reykjavík líka hlutfallslega hærra verðlögð. Garðabæ er skipt upp í þrjá hluta í þessari skoðun og eru öll svæðin meðal efstu hverfa. Miðlægu hverfin í Reykjavík, eins og Melar og Hagar, Teigar og Tún, Lönd, Grandar og Hlíðar, koma einnig sterk inn.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Mikill munur á húsnæði

Í samanburði eins og þessum ber að hafa ýmsa fyrirvara í huga. Tölurnar byggja á viðskiptum hvers árs fyrir sig og því er einungis verið að mæla það húsnæði sem viðskipti fara fram með og tölurnar sýna meðalverð ársins.

Fermetraverð mælir ekki gæði húsnæðis að neinu leyti og alþekkt er að fermetraverð í minni íbúðum er að jafnaði hærra en í þeim stærri. Í sumum hverfanna er enn verið að byggja mikið af nýju húsnæði, t.d. á Seltjarnarnesi, Sjálandi í Garðabæ og í Kópavogi. Þar vega nýjar íbúðir mun meira en í grónum hverfum eins og víða í Reykjavík. Engu að síður eru þessar tölur góð vísbending um hversu mikið það kostar fjölskyldur að komast inn í viðkomandi hverfi og hefja þar búsetu.

Verðbil milli hverfa minnkar

Verðmunur milli dýrustu og ódýrustu hverfa jókst mikið frá 2003 til 2006. Munurinn minnkaði svo aftur fram til ársins 2008 en tók svo að vaxa á ný og var árið 2014 meiri en nokkru sinni fyrr. Á árinu 2015 dró svo aftur saman með dýrasta og ódýrasta hverfi og var sá munur nær óbreyttur í fyrra.

Sé litið á þróunina frá því um aldamótin má sjá að munurinn hefur aukist nær stöðugt. Árið 2002 var dýrasta hverfið 30% dýrara en það ódýrasta og þá hafði þessi munur verið nokkuð óbreyttur frá árinu 1990.

Síðustu misseri hefur verið töluverð umræða um mikla spurn eftir íbúðum á miðlægum svæðum sem hafi ýtt verðum þar upp á við. Svo virðist sem staðan hafi breyst nokkuð þar sem hækkun á miðsvæðum í Reykjavík, t.d. miðborginni, er minni en víða annars staðar.

Breytingar milli ára

Sé litið á hækkunina á milli áranna 2015 og 2016 sést að dýru hverfin hækkuðu ekki mest. Þar er Seltjarnarnes þó alger undantekning, en verð hækkaði langmest þar á síðasta ári. Meðalhækkun þeirra hverfa á höfuðborgarsvæðinu sem Þjóðskrá birtir upplýsingar um var um 11% á milli 2015 og 2016, en meðalhækkun fjölbýlis á öllu svæðinu var um 12%. Tölurnar hér sýna að verðhækkun í miðborginni er nokkuð í takt við þá tölu. Af dýrari hverfum hækka Seltjarnarnes, Teigar og Tún og Grandar meira en miðborgin. Á milli áranna 2015 og 2016 hækkaði verð mest í Húsahverfi, um 25%. Minnstu hækkanirnar 2016 voru í Kórum, Hvörfum og Þingum, rúmt 1%, og í Húsahverfi, um tæp 2%.

Tveggja ára þróun sýnir svipaða mynd

Hækkun milli ára þarf hins vegar ekki að vera besta vísbendingin um þróunina á svæðinu og stundum sést að hverfin sem hækkuðu mest á síðasta ári hækkuðu yfirleitt lítið á árinu þar á undan.

Einfalt meðaltal hækkana í þessum hverfum var um 24% milli 2014 og 2016. Á sama tíma hækkaði meðalverð fjölbýlis á höfuðborgarsvæðinu um rúmlega 23%. Á þessum tveimur árum hefur verð hækkað mest í Álfaskeiði í Hafnarfirði, eða um tæp 38%, og því næst í Teigum og Túnum, um tæp 34%. Minnsta hækkunin var í Akrahverfi í Garðabæ, Salahverfi í Kópavogi og í Háaleiti. Verð í miðborginni hefur hækkað um rúm 24%, sem er álíka og meðaltalið, og af dýrari hverfum hefur verðið hækkað mest í Teigum og Túnum, um tæp 34%.

Er hámarki á mun á dýrustu og ódýrustu hverfum náð?

Sú þróun undanfarinna ára að verðmunur á milli dýrustu og ódýrustu hverfa aukist virðist hafa stöðvast. Það kann að skýrast af því að mikil umframeftirspurn í miðborginni hafi aukið möguleika á sölu í minna miðlægum hverfum meira en í öðrum hverfum. Þá hefur fasteignaverð hækkað mikið undanfarin misseri og væntanlega er fólk farið að hugsa meira um hvar mest fæst fyrir peningana. Hér skiptir einnig máli að þjóðin er fremur ung og fyrstu kaupendur hafa tæplega efni á öðru en að fara út á jaðra höfuðborgarsvæðisins. Þá kann tiltölulega lágt bensínverð undanfarin misseri að hafa haft áhrif á búsetuákvarðanir fólks m.t.t. ferðakostnaðar til og frá vinnu.


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: