„Í dag er fyrsti maí um land allt, nema á Patreksfirði,“ sagði ræðumaður á útifundi fyrsta maí í Hafnarfirði um miðja síðustu öld.
Þetta heyrði ég sem ungur drengur þegar ég bjó í Hafnarfirði. Sögunni fylgdi sú skýring að hann hafi ætlað að segja: „Í dag er fyrsti maí haldinn hátíðlegur um land allt, nema á Patreksfirði.“
Við sem erum orðin sæmilega fullorðin munum þegar sólstöðusamningarnir voru gerðir. Þá var verðtryggingin nýtilkomin. Í þessum þekktum samningum var allt vísitölutryggt. Ég var þá ungur maður og vann á lyftara hjá Eimskip á Akureyri. Blaðakona kom á bryggjuna og spurði okkur hvernig okkur líkaði hin nýi samningur. Ég sagðist sannfærður um að vísitölutrygging launa yrði afnumin við fyrsta tækifæri. Auðvitað var það gert.
Nokkru fyrr var ég stýrimaður á Gunnar Bjarnasyni SH. Skipstjóri var Gunni Gunn, fínn vinur minn. Við vorum á rækjuveiðum norður af öllu. Við komum í land 30. apríl. Trollið þurfti að bæta hér og þar. Að morgni 1. maí vaknaði ég snemma. Trollið var á bryggjunni. Í kafi í snjó á þessum merka degi.
Ég byrjaði að bæta trollið. Þegar klukkan var að verða tólf á hádegi, kom Gunni Gunn og spurði mig hvort við ættum ekki að fara á Hótel Ísafjörð og fá okkur gott að borða í tilefni dagsins. Við hölluðumst báðir til vinstri vinir, ég og Gunni Gunn.
Við fenguð fínasta borð og pöntuðum mat. Opið var fyrir gömlu og góðu gufuna. Síðasta lag fyrir fréttir var sjálfur „Njallinn“. Í fíflaskap stóð ég upp teinréttur. Þegar aðrir gestir, í þéttskipuðum borðsalnum, sáu að ég stóð upp undir „Njallanum“, risu aðrir í salnum á fætur hvert af öðru. Ég varð að klára þessa vitleysu þar til „Njallinn“ þagnaði.
-sme