„Ég verð að lýsa mikilli furðu þegar fólk kemur hér og segir að þetta séu einhver sérstök forréttindi, í ljósi þess hversu breið samstaða var um þetta hér í þinginu á sínum tíma.“
Bjarni Benediktsson.
„Ég verð að lýsa mikilli furðu þegar fólk kemur hér og segir að þetta séu einhver sérstök forréttindi, í ljósi þess hversu breið samstaða var um þetta hér í þinginu á sínum tíma.“
„Ég verð að nota hluta af þeim tíma sem ég hef hér til þess aðeins að ræða um íslensku krónuna og þessa umræðu sem ég heyri sífellt, sérstaklega frá þingmönnum Viðreisnar, um að það séu einhverjir þeir hérna í samfélaginu sem njóti þeirra lúxusréttinda að fá að gera upp í erlendri mynt,“ sagði Bjarni Benediktsson í nýrri þingræðu. „Þetta er mjög undarleg umræða, sérstaklega vegna þess að hér í þinginu náðist breið samstaða á sínum tíma, á árinu 2002, einmitt um að heimila þeim fyrirtækjum sem hafa meginþorra tekna sinna í erlendri mynt að gera upp í þeirri sömu mynt. Um þetta var breið umræða og nokkuð góð samstaða vegna þess að þetta væri eðlilegt, þetta myndi hjálpa viðkomandi fyrirtækjum sem væru sérstaklega í útflutningi að draga úr sveiflum í sínum rekstri. Það er ekki nema eðlilegt að fyrirtæki sem hafa meginþorra tekna sinna í erlendum myntum, vegna þess að þau starfa í alþjóðlegu umhverfi, hafi heimild íslenskra skattyfirvalda til þess að gera upp í þeirri sömu mynt. Ég verð að lýsa mikilli furðu þegar fólk kemur hér og segir að þetta séu einhver sérstök forréttindi, í ljósi þess hversu breið samstaða var um þetta hér í þinginu á sínum tíma. Og að menn skuli síðan koma fram í kjölfarið með þá kröfu að allir aðrir eigi að fá að njóta sömu réttinda, við þessu er í raun og veru ekkert annað svar heldur en að það njóta allir þessara sömu réttinda, allir þeir sem hafa sömu aðstæður, þ.e. hafa meginþorra tekna sinna í erlendri mynt, þeir geta fengið að gera upp í erlendri mynt,“ sagði Bjarni.
„Við erum hér auðvitað að horfa á atvinnustarfsemina í landinu. Að segja það hins vegar einhverja mismunun gagnvart þeim sem ekki eru með meginþorra tekna sinna í erlendri mynt, hvað þá að tala um að einstaklingar ættu að hafa rétt til þess að skila skattframtali sínu í evrum, ég meina, hvert eru menn eiginlega komnir í þessari umræðu? Algerlega út í skurð að mínu áliti, algerlega út í skurð. Það væri svo sem hægt að verja miklum og löngum tíma í umræður um þetta og tengsl þessa við sjálfstæða peningamálastefnu og allt slíkt. Ég bara get ekki setið á mér að gera athugasemdir við þetta,“ sagði ráðherrann Bjarni Benediktsson.