„Þá benda samtökin á að efast megi um að breytingarnar skili raunverulega auknum tekjum í ríkiskassann, enda leiði þær að öllum líkindum til breyttrar hegðunar fyrirtækja sem muni leita leiða til að draga úr tekjuskattskyldum hagnaði með ýmsu móti,“ segir í leiðara Moggans.
Hvernig á að skilja þetta? Er verið að hanna aðferðir til að komast undan skattgreiðslum? Eru Samtök atvinnulífsins að boða hörð átök? Skoðum betur viðbrögðin við fjármálaáætlun Bjarna Benediktssonar:
„Ólíklegt er að auknar opinberar álögur skili sér í auknum tekjum ríkissjóðs verði þær til þess að skerða samkeppnishæfni íslenskra fyrirtækja á alþjóðamörkuðum. Boðuð endurskoðun á veiðigjaldi, hækkun fiskeldisgjalds og aukin gjaldheimta í ferðaþjónustu kalla á að hugað sé sérstaklega að því tryggja jafnræði og að skattheimta hér á landi sé ekki meira íþyngjandi en annars staðar.“
Þetta er hluti af viðbrögðum samtakanna í Borgartúni 35. Alveg makalaust. Eins og kunnugt nær fjármálaáætlunin til áranna 2024 til 2028.
Eðlilegt er að telja að fyrrverandi forsætisráðherra Íslands hafi skrifað leiðarann. Þar segir: „Skattar eru háir á Íslandi og frekari hækkun er líkleg til að draga úr þrótti atvinnulífsins, auka tilhneigingu til að komast hjá sköttunum og á endanum að draga úr tekjum ríkisins, þvert á það sem ætlunin var. Reynslan er ólygnust í þessum efnum. Ísland hefur góða reynslu af því að lækka slíka skatta, efla með því atvinnulífið, bæta lífskjör almennings og auka um leið tekjur ríkisins. Það er sú leið sem ríkisstjórnin ætti að horfa til.“