- Advertisement -

Reykjavík í verri málum en Árborg?

„Reykjavíkurborg er með skýra framtíðarsýn og aðgerðaáætlun í fjármálum.“

Meirihlutinn í Reykjavík.

Á síðasta fundi borgarstjórn gerðu fulltrúar Sjálfstæðisflokks fjárhagsstöðu Reykjavíkur að umtalsefni. Minntust þess að borgin hætti við skuldabréfaútboð, annan mánuðinn í röð

„Þessi atburðarás er lýsandi fyrir alvarlegan fjárhagsvanda Reykjavíkurborgar. Útkomuspá fyrir árið 2022 gerði ráð fyrir 15,3 milljarða rekstrarhalla borgarsjóðs samhliða vaxandi skuldasöfnun. Eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga sendi Reykjavíkurborg bréf 28. febrúar sl. Þar kom fram að samkvæmt fjárhagsáætlun stæðist reksturinn ekki tiltekin lágmarksviðmið. Með ólíkindum er að borgarstjóri hafi ekki enn lagt umrætt bréf formlega fram til umræðu í borgarráði og borgarstjórn enda varðar efni þess mikilvæga hagsmuni sveitarfélagsins. Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja því bréfið fram hér á fundinum og óska eftir því að það verði bókað í fundargerð.“

Næst var það samanburður við Árborg.

Má því ljóst vera að fjárhagsvandi Reykjavíkurborgar er alvarlegur…

„Fleiri sveitarfélög fengu álíka bréf, þ.m.t. Árborg, sem tók erindinu af ábyrgð, hélt íbúafund og boðaði aðgerðir. Í Árborg nema skuldir samstæðu 2 milljónum á íbúa árið 2021, starfsmönnum hefur fjölgað langt umfram lýðfræðilega þróun og hlutfall launakostnaðar af tekjum sveitarfélagsins nemur nú 58,7%. Til samanburðar námu skuldir samstæðu Reykjavíkurborgar 3,1 milljón á íbúa árið 2021, starfsmönnum hefur fjölgað langt umfram lýðfræðilega þróun og hlutfall launakostnaðar af tekjum borgarinnar nemur 60%. Má því ljóst vera að fjárhagsvandi Reykjavíkurborgar er alvarlegur og kalla borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokks eftir því að meirihluti borgarstjórnar bregðist við með jafn heiðarlegum og ábyrgum hætti og sveitarstjórn Árborgar,“ bókaði Sjálfstæðisfólkið.

Meirihlutafólkinu var ekki skemmt og bókaði á móti:

„Reykjavíkurborg er með skýra framtíðarsýn og aðgerðaáætlun í fjármálum. Vegna rekstrarhalla og erfiðra aðstæðna í ytra efnahagsumhverfi borgarinnar sökum verðbólgu og hækkandi vaxta var farið í hagræðingaraðgerðir strax síðasta haust. Gert var ráð fyrir hagræðingu á mörgum sviðum, gjaldskrár leiðréttar í ljósi verðbólgu, settar voru samræmdar reglur um ráðningar, seglin rifuð í fjárfestingum og opnað fyrir fjölbreyttari fjármögnunarkosti. Þessar aðgerðir birtast skýrt í fjárhagsáætlun enda stefnt að því að það verði 9 milljarða króna viðsnúningur í A-hluta Reykjavíkurborgar. Það liggur hins vegar fyrir að borgin, líkt og flest sveitarfélög landsins, glímir við vanfjármögnun í málaflokki fatlaðs fólks. Í níu mánaða uppgjöri borgarinnar munaði 7,6 milljörðum króna á tekjum og útgjöldum í málaflokknum. Það er eitt okkar mikilvægasta viðfangsefni að ná samkomulagi við ríkið um fjármögnun málaflokksins. Uppsafnað eru frávikin í málaflokknum komin yfir tugi milljarða frá því málaflokkurinn var tekinn yfir árið 2011, bara hjá Reykjavíkurborg.“

Enn er leitaði skýringa í málaflokk fatlaðs fólks. Ekki er að efa að skýringa sé að leita víðar.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: