- Advertisement -

Ríkisstjórnin virðist hvorki sjá né heyra gagnrýnina

„Yfirdráttarvextir af húsnæðislánum og ofurbólgin verðtryggð lán verða því áfram veruleiki íslenskra heimila. Það er í boði ríkisstjórnarinnar. Ábyrgðin liggur hvergi annars staðar.“

Sigmar Guðmundsson Viðreisn.

„Þeir sem voru að vonast eftir því að verðbólga og vextir færu hratt niður hér á Íslandi hljóta að hafa orðið fyrir miklum vonbrigðum með nýja þjóðhagsspá Landsbankans sem birtist í gær. Samkvæmt henni munu stýrivextir hækka enn meira en þegar er orðið,“ sagði Sigmar Guðmundsson á þingi fyrr í dag.

„Bankinn telur að stýrivextirnir fari upp í 8,5%, sem er auðvitað umtalsverð hækkun frá því sem þegar hefur orðið. Og það sem meira er, bankinn er að spá því að stýrivextir muni ekki lækka fyrr en eftir eitt ár eða þar um bil. Þá fyrst hefst lækkunarferlið. Þetta eru ömurlegar fréttir fyrir fólk og fyrirtæki. Að svona háir stýrivextir séu viðvarandi í svona langan tíma er all svakalegt högg fyrir allt venjulegt fólk og fyrirtæki líka og kemur auðvitað ofan á alla þá miklu hækkun á verðlagi sem við finnum öll fyrir á hverjum einasta degi,“ sagði Sigmar.

Hann var ekki hættur:

Þú gætir haft áhuga á þessum

Fjármálaáætlunin hefur fengið algjöra falleinkunn.

„Höfum það alveg á hreinu að þetta þýðir í reynd að vextir á óverðtryggðum íbúðalánum eru nánast á þeim kjörum sem buðust á yfirdráttarlánum ekki fyrir löngu síðan og þeir sem eru með verðtryggð lán taka svimandi háa verðbólguna beint inn á höfuðstólinn og lánin þeirra bólgna meira og meira út þrátt fyrir skilvísar afborganir. Við skulum líka hafa það á hreinu að það er einkum tvennt sem viðheldur þessu ástandi sem við Íslendingar þekkjum miklu betur en grannþjóðirnar. Það er í fyrsta lagi íslenska krónan sem ýkir allar sveiflur og viðheldur hærra vaxta- og verðbólgustigi en í grannlöndunum. Þessu má breyta þótt það sé vissulega erfitt að sannfæra fólk sem raunverulega trúir því að þessar sveiflur séu partur af eftirsóknarverðu efnahagsumhverfi. Hitt er að ein meginforsenda þess að verðbólga og vextir gangi hraðar niður eru raunhæfar og óhjákvæmilega sársaukafullar aðgerðir í ríkisfjármálum sem leika lykilhlutverk í þessu gangverki.

Fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar til næstu ára hefur fengið algjöra falleinkunn hjá öllum umsagnaraðilum. Það er eitt og sér áhyggjuefni en það er sýnu verra að ríkisstjórnin virðist hvorki sjá né heyra þá gagnrýni. Yfirdráttarvextir af húsnæðislánum og ofurbólgin verðtryggð lán verða því áfram veruleiki íslenskra heimila. Það er í boði ríkisstjórnarinnar. Ábyrgðin liggur hvergi annars staðar,“ sagði Sigmar Guðmundsson Viðreisn.


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: