Eðlilega eru innanmein í Valhöll. Flokkurinn búinn að missa Samfylkinguna talsvert fram úr sér. Svo virðist sem nú sé sökudólga leitað. Ritstjóri Moggans er engin undantekning þar. Honum þykir Guðlaugur Þór liggja vel við færi. „Það vekur alltaf athygli og jafnvel ónot þegar nýir ráðherrar verða of fljótt taumléttir embættismönnum „sínum“. Vissulega léttir það starfa embættismanna. Nýliðar á ráðherrastóli skynja þó ábyrgð sína og væntingar kjósenda og vilja vel. Sir Humphrey í ráðuneytinu veit að hann ræður mestu um árangur ráðherra.
Nýr ráðherra kemur fáliðaður og verkefnin hellast á hann. Á fáum vikum sér fastaliðið í ráðuneytinu hvort sá nýi verði farsæll á sínum pósti. Sú mælistika er ekki hefðbundin. Mestu skiptir að ráðherrann taki leiðbeiningum og fari „vel í vasa“. Byrji ráðherra á fjórðu viku að tala með viðurkenndum frösum ráðuneytisins, þá er kinkað kolli. Þetta verður í lagi og ástæðulaust að bíða „sinn mann af sér“ og færa honum vandræðaleg verkefni til að flýta fyrir,“ segir í leiðara dagsins. Áfram er haldið:
„Óli Björn Kárason, formaður þingflokks Sjálfstæðisflokksins, skrifaði athyglisverða grein um álitaefnin sem liggja hjá umhverfisráðuneyti. Hann las ungur bókina Endimörk vaxtarins eftir nokkra „vísindamenn“. Þetta hefur verið gagnlegt rit til að hræða líftóruna úr Óla Birni. En boðskapurinn var þó ekki um KING KONG eða leiðangur frá Mars. Komið var að endapunkti mannkyns.“
Leiðaranum lauk ritstjórinn svona:
„Það má gjarnan mæla með lestri á þessari grein Óla Björns. En stóra spurningin er, ef Óli Björn myndi fá áskorun frá okkur öllum hinum og verða umhverfisráðherra, myndi hann þá setja ólina frá Gulla um sinn eigin háls og rétta yfirvöldum svo bandsendann eða …?“
Þannig er þetta. Í miðju fylgishruni eru menn byrjaðir að benda á einn og annan. Það er kjörstaða fyrir andstæðinga flokksins.