„Þetta skrítna Ríkisútvarp okkar getur ekki hamið sig þegar Donald Trump er annars vegar. Það getur ekki einu sinni sagt frá gamalli kæru konu nokkurrar, sem hélt því fram að sá hefði haft við sig mök, væntanlega gegn greiðslu, miðað við starfa hennar, árið 2006! Tíu árum síðar hótaði hún, með atbeina fyrrverandi lögfræðings Trumps, að upplýsa þetta örskömmu fyrir kosningar og valda Trump tjóni, þótt hann neitaði þessum sökum, nema frambjóðandinn greiddi sér fé, sem var skiptimynt miðað við fjárhag Trump,“ skrifar Davíð Oddsson í Reykjavíkurbréfi morgundagsins.
Hann nefndi þennan kafla. „Með Trump gamla á heilanum“.
Oft má halda að DO sé með RÚV á heilanum. Gefum honum orðið:
„Það er alþekkt í Bandaríkjunum að þar sem efnaðir menn eiga í hlut viðurkenna menn ekki sök en kaupa þessi óþægindi af sér enda óhægt um vik í miðri kosningabaráttu. En hvers vegna kom málið þá upp? Vegna þess að lögfræðingurinn fyrrverandi stal fénu frá gleðikonunni og var dæmdur í margra ára fangelsi fyrir vikið! Hann var þá orðinn launaður ráðgjafi frægrar fréttastofu. Þekktur fréttamaður þar heillaðist svo af lögfræðingnum að hann lýsti því yfir í útsendingu að hann teldi hann eiga að fara í forsetaframboð!
Og nú þegar Trump er aftur kominn í forsetaframboð þá er dúkkað upp á ný með málið frá 2006! Íslenska Ríkisútvarpið hefur sleppt að segja frá saksóknaranum í New York sem lét sig hafa að fara með málið sem allir aðrir höfðu hafnað og hvers konar pappír er þar á ferð og hver sé saga hans.“
Næst er DO á Íslandsmiðum:
„Dælt er peningum í RÚV en stofnuninni virðist þrátt fyrir allan þann peningamokstur ófært um að ráða til sín sæmilegt lið í hóp fréttamanna, og er þá ekki rætt um þá sem þar hafa verið eins lengi og þeim var sætt, en voru sagðir vera með stöðu sakborninga, þegar síðast fréttist. Þau mál, sem þar eru á ferð, eru vægast sagt óhugnanleg, þótt rétt sé að bíða dóms áður en meira verði um það fjallað, þótt viðkomandi fréttamenn hafi aldrei gætt slíkra reglna sjálfir.“