Arnar Þór Jónsson, lögmaður og varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins, skrifaði grein sem ritstjóri Moggans tók upp í Staksteinum. Tekur þar með undir með Arnar Þór.
„Hvort ætli sé meiri ógn við lýðræði og mannréttindi: Skautun í umræðunni eða ritskoðun og þöggun? Í umræðum um „aðgerðaáætlun gegn hatursorðræðu“ á Alþingi 8. mars sl. virtist forsætisráðherra hafa meiri áhyggjur af því fyrrnefnda. Af þeirri ástæðu vill hún leggja höft á tjáningu landsmanna og senda okkur á námskeið til að við lærum að hugsa „rétt“ og tala „rétt“. Forsætisráðherra gleymir að tjáningarfrelsið er súrefni lýðræðisins og að mannréttindi verða ekki varin án þess.
Frá stofnun Sjálfstæðisflokksins hefur honum verið ætlað að standa vörð um frelsi fólks til orðs og athafna. Hvar voru þingmenn Sjálfstæðisflokks í umræðunum 8.3. sl.? Ber fjarvera þeirra vott um óheilbrigt ástand lýðræðis okkar? Hafa stjórnarflokkarnir þrír runnið saman í vanheilagt bandalag þannig að við stöndum nú frammi fyrir óhollri samsuðu, þar sem umræða um grundvallarmál er drepin niður, þar sem pólitískar málamiðlanir eru teknar fram yfir hagsmuni almennings og þar sem skammtímahagsmunir yfirtrompa pólitísk prinsipp?“