- Advertisement -

Hrífst af frammistöðu Bidens

Úr Sunnudagsmogganum:

„Anna Makanju, yfirmaður opinberrar stefnumótunar hjá bandaríska fyrirtækinu OpenAI, sem sérhæfir sig í gervigreind, segir komið að vatnaskilum í þeim efnum og að almenningur ætti að vera viðbúinn því að umfaðma tæknina. Anna, sem er úkraínsk í móðurættina, ræðir líka um stríðið og bandarísk stjórnmál en hún starfaði um tíma í Hvíta húsinu.“

Flest­ir af mín­um nán­ustu ætt­ingj­um búa ým­ist í Úkraínu eða Rússlandi og ég reyni allt sem ég get til að styðja þá í hví­vetna.Þetta er stórmerkilegt viðtal. Einkum kaflinn um starf hennar með Obama og Biden.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Í Mogganum segir:

Leið Önnu inn í stjórn­sýsl­una vestra er áhuga­verð og teng­ist veik­ind­um móður henn­ar. „Ef fólk fékk krabba­mein fyr­ir tíð Obama gátu trygg­inga­fé­lög­in neitað því um bæt­ur á þeim grunni að ástandið hefði verið til­komið áður en samið var um trygg­ing­una. Mamma fékk krabba­mein og lést langt fyr­ir ald­ur fram af þeim sök­um og trygg­inga­fé­lagið henn­ar beitti fyr­ir sig téðum rök­um. Þetta var eitt af því sem Obama vildi breyta og það dró mig að kosn­inga­bar­áttu hans. Það gekk raun­ar svo langt að ég sagði upp hjá lög­manns­stof­unni sem ég vann hjá til að vinna í sjálf­boðavinnu fyr­ir fram­boð hans. Að því búnu gerði ég ráð fyr­ir að snúa aft­ur á lög­manns­stof­una en þá fékk ég til­boð um að koma til Washingt­on og vinna fyr­ir rík­is­stjórn­ina. Það vakti for­vitni mína og ég ákvað að prófa það í eitt ár. Þau urðu átta. Ég hafði eng­in áform um að starfa inn­an stjórn­sýsl­un­ar en féll það á hinn bóg­inn mjög vel og það efldi mig til dáða.“

Þegar Rúss­ar tóku Krímskaga 2014 kom Anna til starfa fyr­ir þjóðarör­ygg­is­ráðið í Hvíta hús­inu vegna sérþekk­ing­ar sinn­ar á því svæði. Í fram­hald­inu varð hún helsti ráðgjafi Joes Bidens, sem þá var vara­for­seti, í mál­efn­um Rúss­lands og Evr­ópu. „Ég hefði ábyggi­lega haldið áfram hefði svo­lítið ekki gerst,“ seg­ir Anna hlæj­andi en sem kunn­ugt er töpuðu demó­krat­ar Hvíta hús­inu í kosn­ing­un­um 2016.

– Hvernig finnst þér Biden hafa staðið sig á for­seta­stóli?

„Satt best að segja hef ég hrif­ist mjög af fram­göngu hans. Það eru erfiðir tím­ar heima fyr­ir, þjóðin er klof­in og við erum að jafna okk­ur á heims­far­aldr­in­um, eins og all­ir aðrir, og nú þetta hræðilega stríð. Við hefðum ekki getað beðið um betri mann til að leiða okk­ur gegn­um þess­ar hremm­ing­ar. Hann er hliðholl­ur Evr­ópu, býr að ára­tugareynslu og bæði skil­ur og þykir vænt um svæðið þar sem átök­in geisa. Það hef­ur stuðlað að sam­stöðu á Vest­ur­lönd­um.“

– En heima fyr­ir?

„Hann er ekki pólariser­andi og ekki veit­ir víst af. Auðvitað eru áskor­an­ir í efna­hags­líf­inu en Biden hef­ur leyst þau mál bet­ur en fólk ætl­ar hon­um.“

– Býður hann sig fram aft­ur á næsta ári?

„Það er svarið sem við bíðum öll eft­ir. Re­públi­kan­ar hafa þegar hafið sína kosn­inga­bar­áttu en sitj­andi for­seti hef­ur aðeins meira svig­rúm til að ákveða sig.“

– Gæti hann náð end­ur­kjöri?

„Tví­mæla­laust. Hann hef­ur þegar náð góðum ár­angri á þessu kjör­tíma­bili sem hann gæti vísað til í kosn­ing­un­um. Við lif­um hins veg­ar á óvissu­tím­um efna­hags­lega, eins og ný­legt fall banka ber glöggt vitni um, og ekki gott að segja til um hvenær úr ræt­ist. Mikið velt­ur á því hver staðan verður þegar þjóðin geng­ur að kjör­borðinu haustið 2024, því þegar allt kem­ur til alls þá kjósa Banda­ríkja­menn ekki út frá stríðinu í Úkraínu, held­ur út frá stöðunni heima fyr­ir.“

– Fer ann­ars ekki að koma tími á konu á for­seta­stóli?

„Þið getið trútt um talað enda voruð þið fyrst þjóða til að kjósa konu sem for­seta,“ seg­ir Anna hlæj­andi og kann greini­lega sína sagn­fræði. „Sjálf hélt ég að það myndi ger­ast og vona auðvitað enn þá að það verði en því miður virðist kven­kyns for­seti ekki vera í sjón­máli. Kamala Harris hef­ur ekki verið nógu sýni­leg sem vara­for­seti og vinn­ur að mestu bak við tjöld­in. Fjöl­miðlar meta stöðu henn­ar held­ur ekki sterka. Mitt fólk í Washingt­on ber henni vel sög­una en ég átta mig illa á því hvaða fylgi hún hef­ur á landsvísu.“

Don­ald Trump, fyrr­ver­andi for­seti, sæk­ist sem kunn­ugt er eft­ir því að verða fram­bjóðandi Re­públi­kana­flokks­ins. Anna met­ur það á hinn bóg­inn svo að mögu­leik­ar hans séu afar litl­ir. „Skoðanakann­an­ir benda ekki til þess að hann njóti nægi­lega mik­illa vin­sælda og það er við öfl­uga fram­bjóðend­ur að etja í for­vali flokks­ins. Þess utan þurf­um við líka for­seta sem alla vega reyn­ir að byggja brú og sam­eina þjóðina!“

e.s. Í næstu opnu í Mogganum skrifar Davíð Oddsson um Biden. Hann er á allt annarri skoðun um forsetann en Anna sem hefur starfað með honum um árabil. Svona er þetta.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: