Úr Sunnudagsmogganum:
„Anna Makanju, yfirmaður opinberrar stefnumótunar hjá bandaríska fyrirtækinu OpenAI, sem sérhæfir sig í gervigreind, segir komið að vatnaskilum í þeim efnum og að almenningur ætti að vera viðbúinn því að umfaðma tæknina. Anna, sem er úkraínsk í móðurættina, ræðir líka um stríðið og bandarísk stjórnmál en hún starfaði um tíma í Hvíta húsinu.“
Flestir af mínum nánustu ættingjum búa ýmist í Úkraínu eða Rússlandi og ég reyni allt sem ég get til að styðja þá í hvívetna.Þetta er stórmerkilegt viðtal. Einkum kaflinn um starf hennar með Obama og Biden.
Í Mogganum segir:
Leið Önnu inn í stjórnsýsluna vestra er áhugaverð og tengist veikindum móður hennar. „Ef fólk fékk krabbamein fyrir tíð Obama gátu tryggingafélögin neitað því um bætur á þeim grunni að ástandið hefði verið tilkomið áður en samið var um trygginguna. Mamma fékk krabbamein og lést langt fyrir aldur fram af þeim sökum og tryggingafélagið hennar beitti fyrir sig téðum rökum. Þetta var eitt af því sem Obama vildi breyta og það dró mig að kosningabaráttu hans. Það gekk raunar svo langt að ég sagði upp hjá lögmannsstofunni sem ég vann hjá til að vinna í sjálfboðavinnu fyrir framboð hans. Að því búnu gerði ég ráð fyrir að snúa aftur á lögmannsstofuna en þá fékk ég tilboð um að koma til Washington og vinna fyrir ríkisstjórnina. Það vakti forvitni mína og ég ákvað að prófa það í eitt ár. Þau urðu átta. Ég hafði engin áform um að starfa innan stjórnsýslunar en féll það á hinn bóginn mjög vel og það efldi mig til dáða.“
Þegar Rússar tóku Krímskaga 2014 kom Anna til starfa fyrir þjóðaröryggisráðið í Hvíta húsinu vegna sérþekkingar sinnar á því svæði. Í framhaldinu varð hún helsti ráðgjafi Joes Bidens, sem þá var varaforseti, í málefnum Rússlands og Evrópu. „Ég hefði ábyggilega haldið áfram hefði svolítið ekki gerst,“ segir Anna hlæjandi en sem kunnugt er töpuðu demókratar Hvíta húsinu í kosningunum 2016.
– Hvernig finnst þér Biden hafa staðið sig á forsetastóli?
„Satt best að segja hef ég hrifist mjög af framgöngu hans. Það eru erfiðir tímar heima fyrir, þjóðin er klofin og við erum að jafna okkur á heimsfaraldrinum, eins og allir aðrir, og nú þetta hræðilega stríð. Við hefðum ekki getað beðið um betri mann til að leiða okkur gegnum þessar hremmingar. Hann er hliðhollur Evrópu, býr að áratugareynslu og bæði skilur og þykir vænt um svæðið þar sem átökin geisa. Það hefur stuðlað að samstöðu á Vesturlöndum.“
– En heima fyrir?
„Hann er ekki pólariserandi og ekki veitir víst af. Auðvitað eru áskoranir í efnahagslífinu en Biden hefur leyst þau mál betur en fólk ætlar honum.“
– Býður hann sig fram aftur á næsta ári?
„Það er svarið sem við bíðum öll eftir. Repúblikanar hafa þegar hafið sína kosningabaráttu en sitjandi forseti hefur aðeins meira svigrúm til að ákveða sig.“
– Gæti hann náð endurkjöri?
„Tvímælalaust. Hann hefur þegar náð góðum árangri á þessu kjörtímabili sem hann gæti vísað til í kosningunum. Við lifum hins vegar á óvissutímum efnahagslega, eins og nýlegt fall banka ber glöggt vitni um, og ekki gott að segja til um hvenær úr rætist. Mikið veltur á því hver staðan verður þegar þjóðin gengur að kjörborðinu haustið 2024, því þegar allt kemur til alls þá kjósa Bandaríkjamenn ekki út frá stríðinu í Úkraínu, heldur út frá stöðunni heima fyrir.“
– Fer annars ekki að koma tími á konu á forsetastóli?
„Þið getið trútt um talað enda voruð þið fyrst þjóða til að kjósa konu sem forseta,“ segir Anna hlæjandi og kann greinilega sína sagnfræði. „Sjálf hélt ég að það myndi gerast og vona auðvitað enn þá að það verði en því miður virðist kvenkyns forseti ekki vera í sjónmáli. Kamala Harris hefur ekki verið nógu sýnileg sem varaforseti og vinnur að mestu bak við tjöldin. Fjölmiðlar meta stöðu hennar heldur ekki sterka. Mitt fólk í Washington ber henni vel söguna en ég átta mig illa á því hvaða fylgi hún hefur á landsvísu.“
Donald Trump, fyrrverandi forseti, sækist sem kunnugt er eftir því að verða frambjóðandi Repúblikanaflokksins. Anna metur það á hinn bóginn svo að möguleikar hans séu afar litlir. „Skoðanakannanir benda ekki til þess að hann njóti nægilega mikilla vinsælda og það er við öfluga frambjóðendur að etja í forvali flokksins. Þess utan þurfum við líka forseta sem alla vega reynir að byggja brú og sameina þjóðina!“
e.s. Í næstu opnu í Mogganum skrifar Davíð Oddsson um Biden. Hann er á allt annarri skoðun um forsetann en Anna sem hefur starfað með honum um árabil. Svona er þetta.