Einungis algjört siðrof og afmennskun getur útskýrt stríðsglæpi Rússa
„Í síðustu viku heimsótti ég Kænugarð ásamt forsætisráðherra. Þetta var í annað skipti frá því að allsherjarinnrásin hófst sem ég heimsótti höfuðborg Úkraínu. Þar gafst okkur m.a. tækifæri til að skoða vettvang grimmdarlegra glæpa innrásarhersins í Bucha og Borodianka ásamt því að eiga fund með Volodomyr Zelenskí forseta Úkraínu og öðrum háttsettum embættismönnum í úkraínska stjórnkerfinu. Glæpir sem hafa verið framdir í nafni Rússlands eru þess eðlis að einungis algjört siðrof og afmennskun getur útskýrt þá. Brot á mannúðarlögum blasa við en heildarumfangið er enn þá langt frá því að vera ljóst,“ sagði Þórdís K.R. Gylfadóttir utanríkisráðherra í ræðu á Alþingi.
„Eitt af því sem vekur sérstakan hrylling er markviss brottflutningur barna og ungmenna frá Úkraínu til Rússlands þar sem markmiðið virðist vera að afmá úkraínskan uppruna þeirra. Sú sögulega ákvörðun Alþjóðlega sakamáladómstólsins síðastliðinn föstudag að gefa út handtökuskipun á hendur Vladimír Pútín forseta Rússlands vegna þessara glæpa undirstrikar alvarleikann og þá staðreynd að ákaflega auðvelt er fyrir allar réttsýnar manneskjur að taka skýra og afdráttarlausa afstöðu gegn ofbeldisgerandanum Rússlandi og með þeirri þjóð sem af tilefnislausu varð fyrir fólskulegri árás og verst hetjulega,“ utanríkisráðherra á Alþingi.