- Advertisement -

Bankarnir stefna fólki í óþarft greiðslumat

Marinó G. Njálsson:

Kannski lánveitendur sleppi við stjórnvaldssektina verði þeir búnir að rétta hlut lántaka áður en Neytendastofa tekur mál viðkomandi til meðferðar.

Starfsmaður Hagsmunasamtaka heimilanna vekur í færslu athygli á mögulegum lögbrotum lánveitenda eða a.m.k. mjög frjálslegrar túlkunar þeirra á þörf fyrir greiðslumat. Bið ég fólk að vera vakandi fyrir því atriði sem hér um ræðir.

Í 23. gr. laga nr. 118/2016 um fasteignalán til neytenda segir:

23. gr. Undanþágur frá almennum reglum um lánshæfis- og greiðslumat.Ekki er skylt að framkvæma lánshæfis- og greiðslumat skv. 20. gr. vegna:

Þú gætir haft áhuga á þessum

3. Skilmálabreytingar fasteignaláns, þ.e. frestunar greiðslna eða breyttrar greiðsluaðferðar, sökum þess að neytandi á í greiðsluerfiðleikum.

…hver verður fyrstur til að sýna lántökum sanngirni og umburðarlyndi.

Já, er það ekki merkilegt, að bankarnir og aðrir lánveitendur skuli krefjast þess, að lántakar í greiðsluerfiðleikum greiði fyrir greiðslumat sem lög veita undanþágu fyrir. Aldrei þessu vant, þegar löggjafinn var neytendavænn í lagasetningu, þá hunsa lánveitendur undanþáguákvæðið og hafna lántökum um þau úrræði sem liggja í augum uppi á grundvelli niðurstöðu greiðslumats sem ekki var skylt að framkvæma.

En skoðum hvað segir í athugasemdum með frumvarpinu um 23. gr., þ.e. hver var vilji löggjafans (einnig kallað lögskýring).

Þar segir fyrst: „Að lokum skal nefnt að ekki er í öllum tilvikum gerð krafa um lánshæfis- og greiðslumat. Fjallað er um undanþágur í athugasemdum við 23. gr. frumvarpsins.“

Um 3. tölulið segir m.a.:

„Í 1. mgr. 28. gr. tilskipunarinnar er sérstaklega fjallað um að aðildarríki skuli gera ráðstafanir til að hvetja lánveitendur til að sýna sanngirni og umburðarlyndi áður en málsmeðferð vegna yfirtöku á veði er hrundið af stað. Telja verður að undanþágan samræmist þessu markmiði og gefi lánveitendum möguleika á því að reyna að aðstoða neytanda sem á í greiðsluerfiðleikum, t.d. með því að lengja lánstíma, fresta tímabundið greiðslum og bæta vanskilum á höfuðstól.“

Þarna eru náttúrulega orð sem eru nýlunda fyrir ansi marga sem lent hafa í klóm kröfuhafa:“..hvetja lánveitendur til að sýna sanngirni og umburðarlyndi áður en málsmeðferð vegna yfirtöku á veði er hrundið af stað“!

Áhugavert er að samkvæmt 52. gr. Stjórnvaldssektir, þá getur Neytendastofa lagt stjórnvaldssektir á lánveitanda eða lánamiðlara sem brýtur gegn 23. greininni.

Nú er spurning hve margir hafa farið í bankann sinn og viljað fá frystingar eða breytingar á skilmálum vegna greiðsluerfiðleika, en fengið þau svör að a) viðkomandi þurfi að fara í greiðslumat, b) þarf að greiða fyrir greiðslumatið og c) hafi fallið á greiðslumati og því sé ekkert hægt að gera. Samkvæmt ofangreindu er þetta brot á 3. tölulið 23. gr. laga 118/2016 og getur Neytendastofa lagt stjórnvaldssekt á viðkomandi lánveitanda vegna þessa brots.

Skora ég á lánveitendur að grípa hratt til aðgerða og leiðrétta hlut lántaka sinna svo Neytendastofa þurfi ekki að grípa til stjórnvaldssekta. Ok, ef Neytendastofa fær slík mál inn á sitt borð, þá ber stofnunni að leggja á stjórnvaldssektina og lánveitandanum að leiðrétta hlut lántakans. Kannski lánveitendur sleppi við stjórnvaldssektina verði þeir búnir að rétta hlut lántaka áður en Neytendastofa tekur mál viðkomandi til meðferðar.

Nú hlýtur að hefjast kapphlaup milli lánveitenda um það hver verður fyrstur til að sýna lántökum sanngirni og umburðarlyndi.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: