Þingmenn stjórnarandstöðunnar voru alls ekki sáttir að halda eigi opinn nefndarfund á Alþingi um greinargerð Sigurðar Þórðarsonar, settst ríkisendurskoðanda, vegna Lindarhvols án þess að leyndinni vegna greinargerðinnar verði aflétt.
Sigmar Guðmundsson sagði:
„Hér er að teiknast upp svolítið áhugaverð staða í boði ríkisstjórnarflokkanna. Gagnsæið er orðið svo mikið, upplýsingaviljinn og upplýsingagjöfin svo yfirþyrmandi að nú stendur til að halda opinn fund í beinni útsendingu um trúnaðarmál. Gagnsæið er svo mikið að þessi opni fundur í beinni útsendingu er um trúnaðargögn sem þingmenn meiri hlutans segjast vilja birta en ætla samt bara ekki að gera það. Settur ríkisendurskoðandi á að sitja fyrir svörum um eitthvað sem enginn veit hvað er og enginn má tala um og alls ekki spyrja um þótt ríkisstjórnarflokkunum finnist að samtalið eigi að fara fram fyrir opnum tjöldum í trúnaði. Alltaf gott að taka samtalið. Þetta opinbera trúnaðarsamtal í beinni útsendingu um trúnaðargögnin fer fram eftir helgi þar sem sá sem situr fyrir svörum má alls ekki svara. Þegar ég vann í sjónvarpinu voru svona trúnaðarmál sem ræða þurfti opinberlega afgreidd þannig að gesturinn var blörraður og röddinni breytt. Í tilfelli Alþingis er annar kostur í boði og hann er talsvert betri: Afléttum trúnaði af greinargerðinni og ræðum opinberlega, efnislega og án trúnaðar í beinni útsendingu hvernig farið var með fjármuni almennings. Þessi fyrirhugaði farsi stjórnarmeirihlutans um leyndardóma Leyndarhvols er með þeim lélegri á dagskrá Alþingis í manna minnum.“
Ásthildur Lóa Þórsdóttir:
„Hér er að teiknast upp alveg furðulegur pólitískur farsi þar sem verið er að taka fyrir Lindarhvolsskýrsluna sem enginn er búinn að vera að biðja um á undanförnum vikum, mánuðum og árum, nema meiri hluti nefndarinnar núna, enda er hún löngu lesin og búið að skoða hana. En svo á að ræða hana með einmitt þessum setta ríkisendurskoðanda, án þess að hann megi tala um sína niðurstöðu. Þetta er náttúrlega bara svo yfirgengilega fáránlegt að það nær ekki nokkurri einustu átt. Við þurfum bara að opinbera þetta mál. Við þurfum að hætta þessum feluleik og fara að ræða um þessa hluti eins og þeir eru vegna þess að þjóðin á rétt á að fá að vita hvað þarna gekk á. Burt séð frá því hef ég virkilegar áhyggjur af þeirri stöðu sem verið er að setja settan ríkisendurskoðanda í þegar hann mætir þarna og má ekki svara. Hvernig á hann eiginlega að fara að þessu? Hvað ef hann fer yfir strikið og segir eitthvað sem má ekki segja? Hvernig í ósköpunum á þetta að vera?“