„Ég kem hér upp til að fagna sérstaklega áhuga hæstvirts forseta á litteratúr úrskurðarnefndar um upplýsingamál og túlkun hennar á upplýsingalögum. Nefndin komst nefnilega að þeirri niðurstöðu núna fyrir helgi að það væri óheimilt að halda lögfræðiálitinu sem hér er rætt um frá almenningi á grundvelli undanþágu í 3. tölulið 6. gr. upplýsingalaga. Það sem er athyglisvert hér er að yfirstjórn Alþingis hefur einmitt synjað fjölmiðli um aðgang að þessu skjali á sama ranga lagagrundvellinum,“ sagði Jóhann Páll Jóhannsson.
„Þetta held ég að Alþingi ætti að taka til sín. Hér höfum við þingmenn kallað látlaust eftir því að ekki bara greinargerðin sjálf verði birt heldur líka þetta lögfræðiálit, en ekki hefur verið orðið við því. Í lögfræðiálitinu kemur svo fram mjög sannfærandi rökstuðningur fyrir því að upplýsingaréttur almennings taki til greinargerðarinnar sjálfrar um Lindarhvol ehf., enda hafi stjórnsýsla Alþingis verið felld undir gildissvið upplýsingalaga 2019 sem aftur hrekur allar þær röksemdir sem komu fram í máli stjórnarmeirihlutans á mánudaginn í síðustu viku, þegar mér var bannað með meirihlutavaldi að spyrja spurninga um innihald greinargerðarinnar.“
Birgir Ármannsson þingforseti sagði:
„Forseti vill taka fram að hann tekur að sjálfsögðu mark á úrskurðarnefnd um upplýsingamál, bæði í þeim úrskurði sem féll fyrir helgi og varðar þá afhendingu frá Lindarhvoli, en auðvitað verður farið yfir það hér hvaða afleiðingar þetta hefur varðandi birtingu hér innan húss. En forseti tekur líka mark á þeim lögskýringum og sjónarmiðum sem koma fram í eldri álitum úrskurðarnefndar um upplýsingamál sem varða greinargerð setts ríkisendurskoðanda, og forseti getur vísað í a.m.k. þrjá úrskurði frá árinu 2021 sem fela það í sér að sérregla 15. gr. laga um Ríkisendurskoðun eigi að gilda hér en ekki önnur sjónarmið,“ sagði Birgir Ármannsson.
-sme