- Advertisement -

Bjarni Jónsson þingmaður VG minnir Sigðurð Inga á stjórnarsáttmálann

Í svörum ráðherra kom fram góður hugur en verk eru til alls fyrst.

Bjarni Jónsson.
Bjarni Jónsson þimgmaður VG.

„Fyrir 14 mánuðum spurði ég innviðaráðherra hér hvað liði framkvæmdum við uppbyggingu Vatnsnesvegar. Enn hefur lítið gerst og þá bendi ég á að vegurinn er á kafla umferðarmesti malarvegurinn í landshlutanum og á landinu öllu. Vegurinn er stórhættulegur og úr sér genginn og stendur engan veginn undir þeirri umferð sem um hann fer. Þar er ekki einungis vaxandi umferð ferðamanna, sem skiptir miklu fyrir héraðið, heldur er vegurinn lífæð byggðarinnar og er ekið daglega með skólabörn um holótta, skemmda vegi þar sem jafnvel stuttar vegalengdir verða að dagpörtum á ferðalagi við ömurlegar og viðsjárverðar aðstæður,“ sagði Bjarni Jónsson, þingmaður VG í Norðvesturkjördæmi.

„Ég vil því ítreka hér enn og aftur að nauðsynlegt er að byggja upp veginn, breikka hann og leggja á hann bundið slitlag sem allra fyrst. Í svörum ráðherra kom fram góður hugur en verk eru til alls fyrst. Vatnsnesvegur hefur verið áætlaður á þriðja tímabili samgönguáætlunar, nokkuð sem íbúar landshlutans geta ekki við unað og við sem hér störfum ættum ekki að gera heldur. Við þurfum að setja meira fé eyrnamerkt í tengivegina. Ef svo stór verkefni eru annars vegar þurfum við að setja sérstaklega fjármuni í þau til að geta klárað þau.

Í stjórnarsáttmála segir, með leyfi forseta:

„Markvisst verður unnið að lagningu bundins slitlags á tengivegi til að styðja við atvinnu- og byggðaþróun og auðvelda skólaakstur á svæðum sem nú búa við malarvegi.“

Sú stefnumörkun verður að koma fram með skýrum hætti í nýrri samgönguáætlun sem er í vinnslu. Umhverfis- og samgöngunefnd Alþingis bíður enn eftir að fá drög að henni í hendur. Ég vil hér leggja ríka áherslu á að svigrúm gefist á vormánuðum fyrir umhverfis- og samgöngunefnd að vinna og setja mark sitt á áætlunina eins og er lögbundið hlutverk hennar. Þá er mikilvægt að forgangsröðun og áherslur nefndarinnar liggi fyrir samhliða vinnu og afgreiðslu fimm ára fjármálaáætlunar.“


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: