Þuríður Harpa Sigurðardóttir, formaður Öryrkjabandalagsins skrifar:
Það kemur fyrir að efni Kastljóssins veldur mér því sem í besta falli má lýsa sem undrun. Það gerðist í kvöld þegar sérstaklega var dregið fram að umtalsverðar fjárhæðir hafi verið settar í almannatryggingakerfið og jú eitthvað var bætt í. En því skal haldið til haga að almannatryggingakerfið hefur verið svelt í fjöldamörg ár.
Staða lífeyristaka í dag samanborið við árið 2007 hefur versnað. Lífeyrir almannatrygginga heldur ekki í við almennar launahækkanir í landinu. Launahækkanir koma til vegna kröfu vinnuaflsins um að laun haldi í við hækkanir á neysluvöru; fæði, klæði og húsnæði – sérstaklega þegar verðbólga veður í tveggja stafa tölu.
Því miður er það svo að lífeyrir almannatrygginga og þær óhóflegu skerðingar sem enn eru innbyggðar í kerfið valda því að stór hluti fólks sem reiðir sig á þetta kerfi lifir í fátækt og hefur litla möguleika til að bæta kjör sín.
Húsaleiga og húsnæðislán hækka í hverjum mánuði, matarkarfan hækkar í hverjum mánuði en lífeyrir almannatrygginga gerir það ekki. Í raun er fjöldi fólks á lífeyri sem nær ekki lágmarkslaunum í dag, þar skilur enn talsvert á milli. Það er gríðarlega mikil einföldun og beinlínis rangt að draga upp þá mynd að lægstu tíundir og þar með talinn sá hópur sem nær ekki inn í fyrstu tíund sem eru örorku- og endurhæfingarlífeyristakar búi við góð kjör, að kaupmáttur þess hóps hafi aukist gríðarlega. Það má vel vera að hægt sé að reikna kaupmáttaraukningu á þennan hóp, en hvað skýrir þá það að 40% þeirra sem sækja aðstoð hjá Umboðsmanni skuldara eru öryrkjar? Hvað skýrir þá auknar beiðnir um aðstoð til hjálparsamtaka?
Hvað skýrir örvæntingu fólks í neðstu tekjutíundum sem á ekki fyrir mat handa börnum sínum, fjölskyldur á almennum leigumarkaði og það að fólk neitar sér um heilbrigðisþjónustu? Það nægir illa að benda á ársgamla könnun Hagstofunnar varðandi húsnæðiskjör, þær tölur gilda ekki í dag. Mér heyrðist mest liggja á að setja gjaldtöku á almenning sem reynir að koma sér í rafbíla til að vera umhverfisvænni, ferðaþjónustuna og kannski laxeldið. Ekki á stórútgerðina, engan hvalrekaskatt, ekki bankaskatt því þar eru óútskýrð bágindi.
Almenningur og heimilin í landinu hafa safnað smá sparifé. Þar skal höggva. Barnabætur og vaxtabætur voru hækkaðar en þar verður að gera mun betur. Í raun er það fólkið sem hefur lægstu afkomuna sem ber þyngstu byrðarnar og þannig á það ekki að vera! Mér finnst vanta dass af RÉTTLÆTI í hafragrautinn.