„Í fjölmiðlum er núna að hefjast ný sería í Survivor Valhöll. Að þessu sinni heitir keppnin Hver hatar hann mest? og keppt er um hver hatar samgöngusáttmálann mest. Keppnin er æsispennandi. Sem stendur er bæjarstjóri Kópavogs sigurstranglegur en hann tók óvænt fram úr Mörtu Guðjónsdóttir, borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins. Staðan er hins vegar opin og allt getur gerst. Háttvirtir þingmenn Sjálfstæðisflokksins birtast nú einn af öðrum og litla eyjan er að fyllast af Sjálfstæðismönnum. En það er hins vegar óljóst hvert þau vilja fara eða hverju þau vilja breyta og framkvæmdastjóri og forstöðumaður Betri samgangna eru sem stendur í fullri vinnu við að leiðrétta rangfærslur Sjálfstæðismanna og ættu að mínum dómi að þiggja vaktaálag fyrir,“ sagðu Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir.
„Allt er þetta mjög merkilegt, ekki síst í því ljósi að af þeim níu aðilum sem skrifuðu undir samgöngusáttmálann þá sátu sex Sjálfstæðismenn við borðið; fimm bæjarstjórar Sjálfstæðisflokksins og sjálfur formaður Sjálfstæðisflokksins. Ég veit ekki hvort þau sátu meðvitundarlaus við borðið, en þessi afurð er einfaldlega Sjálfstæðisflokksins. Óánægja með samgöngusáttmálann er í þessu ljósi í sjálfu sér hreinræktað innanbúðarvandamál Sjálfstæðisflokks. Auðvitað er sáttmáli sem þessi alltaf málamiðlun. Sumir vilja að meira sé sett í einkabíla, aðrir vilja borgarlínuna stærri, enn aðrir vilja lengri og breiðari hjólastíga,“ sagði Þorbjörg.
„Viðreisn hefur stutt þennan mikilvæga sáttmála um framtíðarsýn í samgöngum. Það höfum við gert í borgarstjórn, í bæjarstjórnum og hér á Alþingi. Mikilvægi þess að bregðast við fólksfjölgun og til að takast á við loftslagsvandann blasir auðvitað við. En svo virðist sem Sjálfstæðismenn horfist illa í augu við það sem koma skal. Það hefur í því samhengi verið ánægjulegt að sjá framsýni borgarstjórnarmeirihlutans í Reykjavík að þessu leyti.“