Marinó G. Njálsson:
Er það virkilega það sem gerir fyrirtækin ykkar starfshæf, að fólk þurfi að vinna endalausa yfirvinnu eða vera í mörgum störfum til að geta náð sér og sínum upp úr fátkækt?
„Heldur þann versta en næstbesta“ leggur Halldór Laxnes Snæfríði Íslandssól í munn í Íslandsklukkunni (Hið ljósa man) sem svar við spurningu föður sínum, hvernig henni hugnaðist dómkirkjpresturinn eftir að ljóst var að Arnas Arnæus hafði hafnað henni til að kvænast til fjár.
Þess orð koma upp í huga mér, þegar framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins vill heldur að starfsemi mörg hundruð fyrirtækja leggist af um tíma með því að leggja verkbann á starfsfólk sem er í Eflingu. Ætli formaður og framkvæmdastjóri stigi núna fram, þegar það eru SA sem blása til aukins ófriðar og tali um væntanlegt hrun ferðaþjónustunnar eða fylkja þau sér að baki friðarspillinum og hvetja atvinnurekendur til að samþykkja varkbannið. Væru þau samkvæm sjálfum sér, þá taka þau einarða afstöðu gegn verkbanni.
Viðsnúningurinn er mikill frá þeim sáttartóni sem var í viðræðunum sl. fimmtudag og leiddi til frestun verkfalla í þrjá daga. Nú er sannleikurinn kominn í ljós og hann er hverjum sárastur. Það stóð aldrei til að semja við Eflingu.
Hún er kostuleg yfirlýsing SA:
„Í stað þess að Efling lami starfsemi tiltekinna fyrirtækja og atvinnugreina með verkföllum fárra félagsmanna munu SA með verkbanni leitast við að stjórna framkvæmd vinnustöðvana og auka þrýsting á Eflingu að ljúka yfirstandandi kjaraviðræðum.“
Held að þarna hafi átt að standa:
„Í stað þess að Efling lami starfsemi tiltekinna fyrirtækja og atvinnugreina með verkföllum fárra félagsmanna munu SA með verkbanni lama starfsemi mun fleiri fyrirtækja og valda mun meira tjóni en verkföll Eflingar myndu nokkru sinni gera.“
Veit svo sem ekki hve margir atvinnurekendur lesa pósta mína, en það er glapræði að boða til verkbanns til að koma í veg fyrir að fólk nálgist það að geta lifað á dagvinnulaunum sínum. Er það virkilega það sem gerir fyrirtækin ykkar starfshæf, að fólk þurfi að vinna endalausa yfirvinnu eða vera í mörgum störfum til að geta náð sér og sínum upp úr fátkækt? Þegar þið svarið þessari spurningu, gerið það fyrir mig, að horfa framan í börnin ykkar og barnabörn. Starfsfólk ykkar á lúsarlaununum á nefnilega líklega lík börn og barnabörn sem þurfa að horfa upp á foreldra sína, afa og ömmu drepa sig í vinnu til að halda heimilinu og þjóðfélaginu gangandi.
Þó tímarnir hafi breyst þá á þetta ljóð Davíðs Stefánssonar alltaf vel við undir þessum kringumstæðum, því ansi oft eru það félagar í Eflingu sem kveikja eldanna en fá ekki að njóta þeirra.
Konan sem kyndir ofninn minn
Ég finn það gegnum svefninn,
að einhver læðist inn
með eldhúslampann sinn,
og veit, að það er konan,
sem kyndir ofninn minn,
sem út með ösku fer
og eld að spónum ber
og yljar upp hjá mér,
læðist út úr stofunni
og lokar á eftir sér.
Ég veit að hún á sorgir,
en segir aldrei neitt,
þó sé hún dauða þreytt,
hendur hennar sótugar
og hárið illa greitt.
Hún fer að engu óð
er öllum mönnum góð
og vinnur verk sín hljóð –
Sumir skrifa í öskuna
öll sín bestu ljóð.
Ég veit að þessi kona
er vinafá og snauð
af veraldlegum auð,
að launin, sem hún fær,
eru last og daglegt brauð.
En oftast er það sá,
sem allir kvelja og smá,
sem mesta mildi á. –
Fáir njóta eldanna,
sem fyrstir kveikja þá.
Davíð Stefánsson
Marinó skrifaði greinina á Facebook.