- Advertisement -

Íbúðaverð hækkar um allt land

- samt er mikill verðmunur

Hagfræðideild Landsbankans hefur reglulega birt greiningar á verðþróun fasteigna í stærri bæjum utan höfuðborgarsvæðisins. Þar sem viðskipti eru að jafnaði tiltölulega strjál úti á landi er erfitt að fá áreiðanlegar vísbendingar um verðþróun yfir skemmri tímabil en ársfjórðunga.

Rétt um 64% landsmanna búa á höfuðborgarsvæðinu. Um 15% landsmanna býr svo í bæjunum fjórum sem hér eru skoðaðir. Um 79% landsmanna býr því á höfuðborgarsvæðinu og þessum 4 stærstu bæjum.

Sé litið á þróun fermetraverðs í stærri bæjum frá 1. ársfjórðungi 2011 fram til fjórða ársfjórðungs 2016, má sjá að þróunin er misjöfn . Alls staðar er um töluverða hækkun að ræða og þróunin er hvað jöfnust á Akureyri. Þá má einnig greina að dregið hefur úr sveiflum milli ársfjórðunga í seinni tíð.

Hækkandi verð í Árborg og Reykjanesbæ

Þú gætir haft áhuga á þessum

Sé litið á þessa þróun í vísitöluformi þar sem upphafsstaðan er sú sama má sjá að hækkunin er mest á Akureyri og Akranesi. Verðhækkunin hefur verið minni í Árborg og Reykjanesbæ yfir allt tímabilið en þó aukist þar síðustu misseri. Það er athyglisvert að þróunin á Akranesi og Akureyri hefur verið mjög svipuð og á Höfuðborgarsvæðinu. Í tilviki Akureyrar hefur þetta verið þannig allt tímabilið og þróunin á Akranesi hefur verið svipuð allt frá árinu 2013. Þessar tölur sýna greinilega að verðþróunin á höfuðborgarsvæðinu hefur í stórum dráttum ekki verið mjög frábrugðin því sem gerist í stærri bæjum og þeir bæjanna sem hafa verið á eftir eru að draga verulega á.

Mikill verðmunur

Á 4. ársfjórðungi 2016 var meðalfermetraverð alls húsnæðis sem skipti hendur í þessum bæjum utan höfuðborgarsvæðisins hæst 248 þ.kr. á m2 á Akureyri og lægst á Akranesi, um 211 þ.kr. á m2. Á sama tíma var meðalverð í Reykjavík 357 þ.kr. á m2.

Fermetraverð fasteigna á Akureyri var um 69% af verðinu í Reykjavík á 4. ársfjórðungi 2016 og hefur munurinn aukist nokkuð. Samkvæmt sömu mælistiku var fermetraverð í hinum bæjunum töluvert lægra, í kringum 60% af verðinu í Reykjavík.


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: