Ragnar Önundarson skrifar:
Hér ætti löggjafinn og grípa inn í. Verði eiginfjárkröfur til banka lækkaðar geta hluthafarnir “hesthúsað” auð sem aðrir hafa skapað. Hagnaður á að vera og verður að vera umbun fyrir tekna áhættu.
Reiði gætir vegna hagnaðar bankanna. Við þurfum að skilja að stjórnvöld “fyrirskipa” þeim gróðann! Tilgangurinn er að láta viðskiptavini þeirra bera áhættuna, með því að borga há gjöld og byggja þannig upp eiginfjárstöðu skv. reglum.
Þá komum við að alvarlegri þversögn hins kapítalíska hagkerfis: Hluthafarnir öðlast eignarrétt að verðmætum sem aðrir hafa borgað fyrir. Þetta er öðru vísi en venjuleg álagning og gróði, af því að stjórnvöld fyrirskipa gróðann og honum er ætlað að þekja áhættuna af viðskiptum þess sem borgar álagninguna. Hluthafarnir fá gróðann, ÁN þess að bera áhættu! Sama gildir reyndar um sjóði tryggingarfélaga. Hér ætti löggjafinn og grípa inn í. Verði eiginfjárkröfur til banka lækkaðar geta hluthafarnir “hesthúsað” auð sem aðrir hafa skapað. Hagnaður á að vera og verður að vera umbun fyrir tekna áhættu.
Greinargerð, ítarefni:
Bönkum er gert skylt að halda hárri eiginfjárstöðu. Sama eiginfjárkrafa, á sama tíma, kallar á sömu viðbrögð allra. Íbúum landsins fjölgar og það er hagvöxtur, efnahagsreikningur banka stækkar sjálfkrafa með. Bönkum er m.ö.o. gert skylt að græða, til að halda fyrirskipuðu hlutfalli eigin fjár.
Eigið fé er ekki ókeypis, greiða þarf arð. Ef rétt er á lánamálum haldið er áhættudreifingin hvergi eins mikil og arður banka nánast árviss. Í fákeppni er þessi ferill algerlega fyrirsjánlegur.
Bankar varðveita sparifé almennings, miðla lánsfé og annast greiðslumiðlun. Þetta eru mikilvægir innviðir samfélags. Það þýðir að viðskiptamenn VERÐA að kaupa þjónustuna, sama hvað hún kostar. Það er fráleitt að færa einkaaðilum slíka aðstöðu til sjálftöku hagnaðar og arðs á silfurfati.
Ef ríkið fæst ekki til að eiga í bönkum eiga sjóðir almennings, lífeyrissjóðirnir, að gera það og líta eftir rekstrinum í þágu almennings. Ég tel heppilegt að ríkið eigi 34-40% og eigi alls að hafa traustan meirihluta með lífeyrissjóðunum, til að tryggja að einkaaðilar taki sparifé almennings ekki til eigin nota á ný. Við munum að það olli mestu um ógæfuna 2008.
Hagnaður banka er nú kerfisbundinn, af framangeindum ástæðum, háum eiginfjárkröfum í fákeppni. Rétt viðbrögð væru að taka þann hluta hagnaðarins sem er umfram ávöxtunarkröfu markaðarins (“rentuna”) af þeim og endurgreiða viðskiptavinum, ekki hluthöfum.