Úr nýrri Moggagrein eftir Óla Björn Kárason, þingmann Sjálfstæðisflokksins, úr Suðvesturkjördæmi:
„Oft finnst mér eins og það sé meiri skilningur út á landi en á höfuðborgarsvæðinu á því að atvinnulífið – fyrirtækin í landinu – skapa þau verðmæti sem okkur eru nauðsynleg til að standa undir velferðarsamfélaginu. Út á landi gerir fólk meiri kröfur til sjálfs sín en annarra en það ætlast um leið til þess að hagrænir innviðir séu sterkir; góðar samgöngur, öflug ljósleiðaratenging, trygg og nægjanleg raforka. Traustir innviðir eru forsenda lífvænlegs atvinnulífs. Ekkert byggðarlag kemst af án atvinnulífsins. Á landsbyggðinni þekkir fólk af eigin raun að þegar fyrirtækjunum gengur vel, þá gengur samfélaginu vel.
Kraftar einkaframtaksins eru sýnilegri í fámenni en fjölmenni. Framtakssemi og hugvit eins breytir samfélagi, styrkir það og gerir það fjölbreytilegra. Í sambýli við sjóinn er það lífsspursmál að sjávarútvegur fái að dafna. Með sama hætti er landbúnaður undirstaða blómlegra byggða. Ferðaþjónustan er ný stoð með fjölbreytileika sem hefur gefið áður óþekkt tækifæri til nýsköpunar.
Þau eru mörg málin – lítil og stór – sem fólk hefur rætt við okkur. Það er bjartsýnt á framtíðina og reiðubúið til að takast á við áskoranir. Á landsbyggðinni sjá menn tækifærin til atvinnu- og verðmætasköpunar. Skilja hve mikilvægt það er að sköpunarkraftur og hugvit einstaklinganna sé virkjað. Vita af eigin raun hverju mikilvægt það er að opinbert regluverk og kerfið sé ekki að „flækjast“ fyrir og gera einstaklingum erfiðara fyrir.
Líklega er það þess vegna sem hugmyndafræði tortryggninnar festir illa rætur út á landi. Hugmyndafræði átaka, sem þrífst á að reka fleyg milli launafólks og atvinnurekenda, milli kynslóða og milli dreifbýlis og þéttbýlis, á erfitt uppdráttar meðal þeirra sem vita hvernig verðmætin verða til. Þeir sem skilja samhengið milli arðbærra fyrirtækja, blómlegs byggðarlags og öflugs velferðarkerfis, treysta en tortryggja ekki.“