Ragnar Þór Pétursson, fyrrverandi formaður Kennarasambandsins, skrifaði:
Félag atvinnurekenda óskar eftir viðbrögðum við því að þeir fengu fyrirtæki til að fullyrða það að laun opinberra starfsmanna væru orðin jafn góð eða betri en á almennum markaði. Nú hef ég ekki rekist á tengil á skýrsluna en ég horfði á kynninguna á niðurstöðum hennar og sá þar myndrit.
Hér eru því viðbrögð:
- 1. Fullyrt er að laun hafi hækkað hlutfallslega meira hjá opinberum aðilum en á almennum markaði (á nafnvirði) síðustu misseri. Engin tilraun er gerð til að skýra hvernig það stafar af mestu leyti af því að laun, sérstaklega hjá sveitarfélögunum, voru miklu lægri til að byrja með og að síðustu samningar hafa snúist um hlutfallslega meiri hækkanir lægstu launa.
- 2. Sagt er að ríkisstarfsmenn fái meira útborgað en starfsfólk á almennum markaði. Engin tilraun er gerð til að útskýra hvaða áhrif það hefur haft að ríkið hefur losað sig kerfisbundið við fólk á lægri launum síðustu árin og keypt í staðinn þjónustu af almennum markaði.
- 3. Látið er eins og það sé aukatriði hve illa sveitarfélögin borga laun. Samkvæmt tölum fyrirtækisins eru laun fólks í fræðslustarfsemi um 75-85% af því sem þau eru á almennum markaði. Samt er mantra skýrslukaupenda að nú þurfi hið opinbera aldeilis að herða ólina.
Staðreyndin er sú að ef þú metur laun á opinberum og almennum markaði út frá öllum málefnalegum skýribreytum (svo sem menntun, reynslu og svo framvegis) hallar stórkostlega á opinbera starfsmenn. Nú er það engin sérstök krafa á almennan vinnumarkað að hann sé sanngjarn – það er hinsvegar krafa sem við eigum hiklaust að gera á hinn opinbera markað. Það kemur ekki til greina að sætta sig við það að opinberir vinnuveitendur viðhaldi kerfisbundnu ranglæti, sem að mestu leyti er stærsta vígi kynjamismununar í landinu.
Nú skilst mér að ráðamenn vilji (einhverjir) senda alla opinbera starfsmenn á endurmenntunarnámskeið í fordómum, mismunun og hatursáróðri. Það væri þokkaleg hræsnin að sitja slíkt námskeið hjá stærsta varðhundi mismununar í landinu – hinu opinbera.