Sigmundur Ernir Rúnarsson:
Íslendingum hefur ekki tekist að nýta náttúruauðlindir sínar í þágu samfélagsins. Það hefur þeim mistekist hrapallega.
Ástæðuna má rekja til einbeitts pólitísks hroka af hálfu stjórnmálaflokka sem hafa um langt árabil séð hag sínum best borgið með því að afhenda sameiginleg verðmæti þjóðarinnar til útvalinna landsmanna – og það á silfurfati, stíffægðu.
Greiðinn hefur svo verið endurgoldinn með dúsu í kosningasjóði.
Svona er ástatt fyrir Íslandi. Það er spillt þjóðríki. Og það hefur ekkert breyst í áranna rás af því að stórum hluta þjóðarinnar er sama um þennan ráðahag og heldur sömu arðræningjunum að völdum frá einni kosningu til annarrar.
Engu breytir þótt flokkur, sem einhverra hluta vegna kallar sig Vinstri grænan, taki að sér að framlengja pólitískt líf þessara afla. Í hálfan áratug hefur hann ekki hreyft mótbárum. Hann lætur sér spillinguna í léttu rúmi liggja.
Í besta falli er búin til svo fjölmennur starfshópur um málið að niðurstaðan getur aldrei orðið annað en óbreytt ástand. Og til þess er leikurinn líklega gerður.
Þess vegna heldur spillingin áfram. Hún er og verður ofviða íslenskri pólitík.
Svört skýrsla Ríkisendurskoðunar um eftirlitsleysið og yfirganginn í uppbyggingu sjókvíaeldis á Íslandi er enn ein áminningin um að íslenskt stjórnkerfi hirðir ekki um verkefni sín. Kerfið kann ekki að stjórna. Eða öllu heldur, því er sama. Þetta má bara reka á reiðanum.
Það er og verður íslenska leiðin.
Kappið skal alltaf vera meira en forsjáin.
Þess vegna hefur sjókvíaeldið farið fram úr regluverkinu og skilið meðvitundarlaust stjórnkerfið eftir með jakkann á stólbakinu. Og eftir að firðirnir hafa fyllst af hverri kvínni af annarri, án þess að náttúran hafi nokkurn tíma mátt njóta vafans, kemur í ljós að eftirlitið með öllu saman er rekið með tapi. Hafrannsóknastofnun þarf að sækja um styrki til að gæta að göslaraganginum.
Og það er auðvitað vegna þess að það gleymdist að gera ráð fyrir gjaldtökunni. Enn einu sinni eru náttúruauðlindir landsins á útsölu. Í boði stjórnvalda. Það er pólitísk stefna ráðandi afla.
Niðurstaðan er þar af leiðandi gamalkunnug. Það er með öllu óvíst hvort sjókvíaeldið, hvers arður rennur í fárra manna vasa, og líklega röngum megin við lögsöguna, er á endanum þjóðhagslega hagkvæmt.
Á Íslandi er nefnilega allt reiknað eftir á. Og niðurstaðan kemur alltaf ofboðslega á óvart. Og birtist landsmönnum í enn einni svörtu skýrslunni.
Hvað ætli þær séu orðnar margar?
Vanræksla af hálfu valdhafa er viðvarandi pólitík á Íslandi.
(Þetta er leiðari Sigmundar Ernis Rúnarssonar í Fréttablaði gærdagsins.)