Andrés Ingi Jónsson Pírati sendi forsætisráðherra tóninn. Taldi Katrínu skjóta ómaklega á Þorgerði Katrínu.
„Bara í framhaldi af þessu þá virkar það náttúrlega hálf einkennilega að vera að kenna háttvirtum þingmanni Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur hvernig hlutirnir virka hérna. Við munum það nú, sem kom fram á þingsetningu eftir kosningar, að háttvirtur þingmaður er starfsaldursforseti okkar hér inni og ætti þess vegna að vera flestum hnútum kunnugri en nokkurt annað okkar. Auðvitað þurfti hún að bera af sér sakir vegna þess að það sem upp á hana var borið var ekki bara það að hafa stofnað einhvern starfshóp heldur var hæstvirtur forsætisráðherra að nota seinna svar í óundirbúinni fyrirspurn, eins og allt of oft tíðkast, til að koma með einhverja skítapillu á háttvirtan þingmann, þá skítapillu að svört skýrsla Ríkisendurskoðunar, um aðgerðaleysi ríkisstjórnarinnar í því að koma einhverjum böndum á sjókvíaeldi, væri háttvirtur þingmanni Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur að kenna. Ríkisstjórnin getur bara átt sitt slor í friði og hætt að reyna að maka því á okkur hin, þetta er bara þeirra slor.“