Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar leiðara Fréttablaðsins í dag. Þar skrifar hann um margt af því sem þjóðin hefur ekki efni á, eða því sem næst. Innviðirnir eru víða fúnir eða myglaðir.
„Og þetta gerist þrátt fyrir auknar álögur sem er samnefnarinn í stjórnarfari Sjálfstæðisflokksins og Vinstri grænna sem ásamt þægilega prúðum Framsóknarflokki hefur haldið um stjórnartaumana í hálfan áratug.
Hvað hefur gerst á þeim tíma?
Er ofsagt að það sé ekkert?
Ekki hefur hagur heilbrigðiskerfisins skánað á þessum tíma. Miklu fremur er því þveröfugt farið. Ekki hefur okkur tekist betur upp í vetrarþjónustu á þjóðvegunum. Og núna er svo komið að skera þarf niður fjármuni til þjóðarháskólans sem á fyrir vikið erfiðara með að keppa við háskóla nágrannaþjóðanna um nemendur víða að úr löndum heimskringlunnar.
Og það er sárara en tárum taki að nefna þjónustu við aldraða og öryrkja, en annar tveggja hópanna er orðinn að einhverjum kerfislægum fráflæðisvanda á meðan hinn situr eftir með æ rýrari kjör sem eru í engum takti við lágmarksviðmið hins opinbera.
Og enn grátlegra er að fylgjast með biðlistunum á bæklunarstofum ríkisins, greiningarstöðvum þess, talmeinaþjónustu, sálfræðiaðstoð og á meðferðarheimilum af öllu tagi, en almenningur, jafnvel okkar veikustu börn, er númer rugl í röðinni.
Hvernig tókst okkur þetta eiginlega?
Hvernig fórum við að því að búa til samfélag þar sem landsmenn borga rausnarlega skatta en þurfa svo jafnframt að borga fyrir hvert viðvik í allra handa þjónustu hins opinbera? Svarið er líklega að við kunnum ekki að stjórna.“