„Þar er nú stefnt að verkföllum til að freista þess að knýja á um enn meiri hækkanir en náðust í nýlegum samningum við stærstan hluta vinnumarkaðarins. Forysta Eflingar, sem stofnað hefur til ófriðarins, telur að hækkun launa hafi engin áhrif á verðbólgu og sjálfsagt sé að hækka laun án nokkurs tillits til efnahagsástandsins. Þessi sjónarmið eiga sér enga stoð í raunveruleikanum og þó fyrrnefndir markaðsaðilar séu vissulega ekki óskeikulir í mati sínu þá hlýtur að verða að horfa til væntinga þeirra meðal annarra þátta,“ segir í leiðara Moggans.
Þar er varað við Eflingu. Látið eins og eina erindi Eflingar sé að auka á verðbólguna, sem til þess kjörið fólk ræður ekki við þessa dagana. Efnahagsstjórnin er ekki ýkja merkileg þessar vikurnar.
„Með verðbólguna á uppleið og miklar launahækkanir nýlega samþykktar blasir við að stórkostlegt hættuspil væri að ganga enn lengra í launahækkunum. Stóryrði breyta engu um þetta og þau verja ekki launamenn fyrir þeim skaða sem mikil og langvarandi verðbólga veldur. Mestu hagsmunir launamanna eru að samið verði af skynsemi og að stöðugleiki náist sem fyrst í verðlagsmálum. Vissulega þarf fleira að koma til en ábyrgir kjarasamningar, en án þeirra eru þó afar litlar líkur á að stöðugleiki náist,“ segir í leiðaranum.
Þetta eru ömurleg sjónarmið. Það er ekki hægt með nokkru móti að sættast á að fólk sem vinnur fullan vinnudag í erfiðis vinnu fái ekki laun sem duga til framfærslu. Sá sem fær fimm milljónir í mánaðarlaun á erfitt með að setja sig í spor þess sem lifir í sárustu fátækt.
Stöðu þess fólks verður að bæta. Og það sem fyrst.
-sme