Í pósti sem Erna Björg Sverrisdóttir, aðalhagfræðingur Arion banka, sendi frá sér er margt að finna. Til dæmis þetta:
„Hið opinbera eykur verðbólgu með ríflegum gjaldskrárhækkunum (gróflega áætlað 0,7-0,8% áhrif á VNV): Gjaldskrárhækkanir í janúar eru engin nýlunda. Á síðustu árum hefur verið reynt að stilla hækkunum í hóf til að stuðla að verðstöðugleika en í ljósi mikillar verðbólgu ákvað hið opinbera að nú dygðu engin vettlingatök, hækka skyldi krónutölugjöld um 7,7%, leggja á ofangreint 5% vörugjald á allar nýjar fólksbifreiðar og hækka almennt allar gjaldskrár um 5-7%.“
Og Erna Björg segir meira:
„Áhrifin á VNV dyljast engum: Áfengi og tóbak hækkaði um 5,5% (0,13% áhrif á VNV), hitaveita hækkaði um 6% (0,12%), sorphreinsun um 12,3% (0,07% áhrif á VNV), eldsneyti um 0,7% (0,03% áhrif á VNV), grunnskólar um 5,9% (0,01% áhrif á VNV) og leikskólar um 5,7% (0,02% áhrif á VNV), svo fátt eitt sé nefnt! Bætum við stórum hluta af verðhækkun nýrra bíla og við erum fljót að komast upp í 0,7-0,8% áhrif á VNV, sem rekja má beint til hins opinbera.“
Að auki sagði Erna Björg að vaxtahækkun nú hjá Seðlabankanum hefði þau áhrif að þrátt fyrir að húsnæðisverð sé tekið að lækka muni hin reiknaða húsaleiga, sem vegur þungt í mælingu vísitölunnar, áfram hækka. Á mannamáli þýðir þetta að vaxtahækkanir Seðlabankans hafa bein áhrif til hækkunar á vísitölu neysluverðs og eru þar með sjálfstæður verðbólguvaldur.