- Advertisement -

Katrín: Verðbólgan er á breiðum grunni

„Heimilin á Íslandi eru sett undir það að bera uppi íslensku krónuna meðan breiðu böki og vinir ríkisstjórnarinnar fá að leika sér fyrir utan íslenska krónuhagkerfið.“

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir.

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir spurði forsætisráðherra, Katrínu Jakobsdóttur, um verðbólguna:

„Ég þakka háttvirtum þingmanni Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur fyrir að vekja máls á þessu stóra máli sem raunar var til umræðu á fundi ríkisstjórnar í morgun, þ.e. verðbólgan. Eðlilega, af því að þetta er eitt brýnasta málið sem við erum að takast á við núna eins og aðrar ríkisstjórnir á Vesturlöndum. Við erum að glíma við mestu verðbólgu sem sést hefur um árabil víðast hvar annars staðar, en við Íslendingar höfum kannski meiri reynslu af því að takast á við verðbólgu en flest nágrannaríki okkar.

Vegna þess sem háttvirtur þingmaður segir hér varðandi hækkun opinberra gjalda vil ég segja að við getum ekki litið fram hjá því að allar þessar staðreyndir lágu fyrir þegar við gengum frá fjárlögum og tekjubandormur hér fyrir áramót, við gerðum okkur algjörlega grein fyrir því að þetta hefði áhrif á verðbólgu. Það breytir því ekki að þessir tekjustofnar hafa rýrnað að raunvirði á undanförnum árum vegna þess að við höfum verið að halda hækkunum á þeim í algeru lágmarki. Við höfum verið mjög hófstillt í hækkun þessara gjalda og ég tel ekki að það sé réttlætanlegt að þeir rýrni meira við þær aðstæður sem eru uppi.

Þú gætir haft áhuga á þessum

„þessi ríkisstjórn beitti sér fyrir lækkun tekjuskatts á tekjulægstu einstaklingana.“

Ég vil líka minna háttvirtan þingmann á að tekjur af skattlagningu ökutækja og eldsneytis hafa lækkað á undanförnum árum samhliða breyttri samsetningu bílaflotans. Það skiptir auðvitað máli að við horfum til þess til lengri tíma að fleiri bílnotendur og bíleigendur taki þátt í að greiða fyrir notkun á vegakerfinu. Breytingin á gjaldtöku, á krónutölugjöldum, af áfengi, tóbaki og eldsneyti er ætlað að hafa haft u.þ.b. 0,2% áhrif til hækkunar á vísitölu neysluverðs. Við megum ekki gleyma að setja þetta í samhengi við þá staðreynd, af því að hér er talað um álögur á almenning, að þessi ríkisstjórn beitti sér fyrir lækkun tekjuskatts á tekjulægstu einstaklingana sem er eitthvað sem munar raunverulega um fyrir þann hóp.

Hvað varðar verðbólguna sjálfa þá er hún á breiðum grunni. Eins og ég segi, þetta er eitt stærsta verkefnið til að takast á við. En það að benda á hækkun á áfengis- og tóbaksgjaldi sem eina sökudólginn í þessu, það er vægast sagt einföldun.

Þorgerður Katrín:

„Við hefðum sett meiri byrðar á breiðu bökin eins og sjávarútveginn og fiskeldið.“

„Ríkisstjórnin kynnti fjárlagafrumvarpið núna í haust með því að það verði viðspyrna gegn verðbólgu og það ætti að treysta kaupmáttinn. Forsætisráðherra kemst ekki hjá því að átta sig á því að hækkanir ríkisstjórnarinnar á bensíni, á búsinu og á búvörum ekki síst hafa leitt til þess að verðbólgan er núna að hækka en ekki lækka í mánuði sem hún alla jafna á að lækka. Ef Viðreisn hefði verið í stjórn þá hefðum við ekki verið að hækka gjöldin núna í samræmi við verðlag. Við hefðum sett meiri byrðar á breiðu bökin eins og sjávarútveginn og fiskeldið. Við hefðum lækkað tollana á nauðsynjavörur íslenskra heimila og hætt við sérreglur á mjólkurvöru, lagt niður verðlagsnefnd búvara og við hefðum farið í beingreiðslur til bænda. Við hefðum nýtt og við hefðum treyst á samkeppnina, treyst á frelsið í baráttunni við verðbólguna.

Auðvitað hefðum við líka, virðulegur forseti, farið strax í það ferli að losa kverkatakið sem íslenska krónan hefur á heimilum landsins því að annars lenda ekki bara börnin okkar heldur líka barnabörnin og barnabarnabörnin í þessum endalausa rússíbana verðbólgu og okurvaxta. Misréttið í samfélaginu mun halda áfram ef við tökum ekki á þessu þar sem heimilin á Íslandi eru sett undir það að bera upp íslensku krónuna meðan breiðu böki og vinir ríkisstjórnarinnar fá að leika sér fyrir utan íslenska krónuhagkerfið.“


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: