- Advertisement -

„Skaðræðisfrumvarp“ dómsmálaráðherra

Það urðu því svo sannarlega jákvæðar breytingar á þessu máli og það var fyrir tilstilli Vinstri grænna…

Útlendingafrumvarp Jóns Gunnarsson skekur starfsandann á Alþingi. Hér á eftir eru dæmigerð skoðanaskipti. Guðmundur Ingi Guðbrandsson félagsmálaráðherra hefur ekki svarað ákalli um að vera viðstaddur umræðu um málið. Þrátt fyrir að þess hafi ítrekað verið óskað. Ráðherrann var í þinginu þegar óundirbúnar fyrirspurnir voru á dagskrá. Þá var stokkið á ráðherrann:

Andrés Ingi.

„Enn og aftur er Alþingi með til umfjöllunar skaðræðisfrumvarp dómsmálaráðherra um aðför að fólki á flótta, svokallað útlendingafrumvarp. Breytingin sem varð þetta misserið er sú að þingflokkur Vinstri grænna og ráðherrar flokksins hleyptu málinu fyrirvaralaust til þingsins, gerðu engan fyrirvara við afgreiðslu málsins. Þetta skýtur dálítið skökku við í ljósi þess að allar umsagnir sérfræðinga og fagaðila eru á sama veg og öll hin síðustu skiptin, að það sé margt slæmt í þessu frumvarpi,“ sagði Andrés Ingi Jónsson Pírati, á síðasta þingdegi í síðustu viku.

Þú gætir haft áhuga á þessum

„Nú hefur bæst við grasrótarhreyfingin Fellum frumvarpið, sem kallar eftir því að málið verði dregið til baka og unnið upp á nýtt í samstarfi við fagaðila þar sem virðing fyrir jafnrétti og mannréttindum eru höfð í hávegum. Að þessari grasrótarhreyfingu standa ýmis ungmennasamtök, þar á meðal ungmennahreyfing Vinstri grænna, Ung vinstri græn, flokks hæstvirts ráðherra. Ráðherrann hefur lýst einhverjum efasemdum og áhyggjum af málinu við fjölmiðla en átti ekki heimangengt til að taka þátt í 1. umr. um málið. Fulltrúar ráðherra hafa mætt á lokaða fundi allsherjar- og menntamálanefndar til að lýsa einhverjum formlegum efasemdum við málið. Mig langar við þetta tækifæri að gefa ráðherra einfaldlega tækifæri til þess að ræða afstöðu sína gagnvart frumvarpinu hér í ræðustól, í augsýn almennings, í augsýn Ungra vinstri grænna sem skora á ráðherrann að draga málið til baka.“

Guðmudndur Ingi.

„Mig langar að byrja á því að koma inn á það með hvaða hætti þetta frumvarp hefur tekið breytingum, enda búið að leggja það fjórum eða fimm sinnum fram á þinginu. Það voru mjög mikilvægar breytingar sem voru gerðar á frumvarpinu,“ sagði Guðmundur Ingi Guðbrandsson félagsmálaráðherra.

„Í fyrsta lagi, og það er náttúrlega langstærsta breytingin áður en frumvarpið kom hér inn í þingið núna síðast, að halda þeirri heimild inni í lögunum að taka megi mál til efnismeðferðar þó svo að fólk hafi fengið vernd í öðru ríki. Þetta var atriði sem ekki bara Vinstri græn höfðu lagt þunga áherslu á, í fyrri meðförum þingsins á málunum sem hér höfðu komið inn, heldur líka margir aðrir þingmenn. Þetta er farið út, sú breyting sem átti að gera þarna, og það er auðvitað fyrir tilstilli Vinstri grænna. Ef háttvirtur þingmaður er ekki búinn að átta sig á því þá veit hann það núna.“

„Það fór út umdeilt atriði sem m.a. Læknafélag Íslands gerði alvarlegar athugasemdir við og félagið hefur reyndar fagnað þeim breytingum. Það má líka nefna að eftir að frumvarpið var sett í samráðsgátt í lok janúar 2022 og þangað til það síðan kom fram um vorið voru gerðar jákvæðar breytingar sem fjölluðu um 30 daga regluna, t.d. að til viðbótar við að ekki væri heimilt að fella niður réttindi barna þá ætti það líka að ná til foreldra eða umsjónarmanna þeirra, að alvarlega veikir einstaklingar og fatlaðir einstaklingar með langvarandi stuðningsþarfir ættu ekki að sæta skerðingu á þjónustu og margt fleira. Það urðu því svo sannarlega jákvæðar breytingar á þessu máli og það var fyrir tilstilli Vinstri grænna, það vitum við öll. Málið hefur síðan verið og er til þinglegrar meðferðar hjá Alþingi og ég geri bara ráð fyrir því að sú vinna haldi áfram núna milli 2. og 3. umr., því mér skilst að það sé búið að kalla málið inn,“ sagði ráðherrann.

Andrés Ingi.

„Vegna þess að hæstvirtur ráðherra talar um jákvæðar breytingar er kannski rétt að halda því líka til haga að þrátt fyrir allar breytingar sem hafa orðið á málinu til þessa dags þá er hver einasta umsögn um það neikvæð. Hver einasti sérfræðingur segir að þetta mál sé ekki gott. Og þó að Vinstri græn hafi náð að kría burt eitt ákvæði þá standa eftir svona sjö í viðbót sem eru alveg jafn slæm. En það að flokkurinn hafi látið af öllum fyrirvörum um málið út af þessu eina atriði finnst mér frekar benda til þess að rýnin hafi ekki verið sérstaklega djúp innan þingflokksins. Ráðherrann svaraði því ekki hver væri afstaða sín gagnvart frumvarpinu hér í sínu fyrra svari, hann gerir það kannski í seinna skiptið, en með því að hafa hleypt því fyrirvaralaust í gegnum þingflokk og ríkisstjórn þá reikna ég með að hann styðji það óbreytt.

En út af þessari, mig langar að segja hringavitleysu varðandi það að kalla málið inn milli 2. og 3. umr. frekar en að hafa gert breytingar á því í síðustu viku ef ástæða var til, þá held ég að við eigum heimtingu á því að vita hvaða breytingar það eru sem Vinstri græn sjá fyrir sér að verði gerðar á frumvarpinu milli 2. og 3. umr., ef einhverjar,“ sagði Andrés Ingi.

Guðmundur Ingi.

Guðmundur Ingi svaraði:

„Það er alveg ljóst að hér er um að ræða mál sem er umdeilt. Um það deilum við ekki. Háttvirtur þingmaður kom inn á að fulltrúar ráðuneytis míns hefðu komið fyrir nefndina og ég vil bara nota tækifærið hér til að koma því á framfæri að ástæðan fyrir því að ráðuneyti mitt kom fyrir nefndina var til að skýra ákveðna lagagrein og leggja til að þar yrði tekinn af allur vafi um það að það væri í valdi lögreglunnar að fara með ákveðin atriði svo ekki yrði misskilningur í löggjöfinni. Það er eðlilegt að ráðuneyti komi fyrir nefndir til að skýra slíkt. Ég studdi það að málið færi til þingflokka og í þingflokknum okkar var bókun þar sem farið var inn á það að í ljósi mikilvægrar breytingar á frumvarpinu þá legðist þingflokkurinn ekki gegn því að málið yrði lagt fram á þingi. Málið er í þinglegri meðferð. Eigum við ekki að leyfa þinglegri meðferð málsins að halda áfram? Sá sem hér stendur gerir ekki breytingar á máli sem er í meðförum Alþingis, sérstaklega ekki þegar málið er ekki frá ráðherranum.“


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: