- Advertisement -

Kvótinn skaðlegri en eldgosið

Gunnar Smári:

Kvótinn lokaði í raun atvinnugreininni svo ungt fólk sem vildi reyna fyrir sér í útgerð gat það ekki lengur. Fækkun útgerða dró síðan úr allskyns þjónustu við þær, netaverkstæðum, vélsmiðjum, verslunum sem seldu kost o.s.frv.

Hagstofan tók saman íbúatölur Eyjamanna í dag í tilefni þess að fimmtíu ár eru liðin frá Vestmannaeyjagosinu. Þar sést hversu mikil áhrif gosið hafði, margt af því fólki sem flúði gosið sneri ekki aftur til Eyja. En þegar rýnt er í tölurnar sést að framundan var enn meira áfall, sem dró miklu meira úr íbúafjöldanum í Eyjum. Það var kvótakerfið.

Hagstofan birtir þetta graf á heimasíðu sinni í morgun:

Við grafið er sagt að mikil fólksfækkun hafi orðið í Vestmannaeyjum í kjölfar eldgossins. Þannig voru 5.303 íbúar skráðir til heimilis í Vestmannaeyjum 31. desember 1972, tæplega mánuði fyrir eldgosið, en ári síðar voru íbúar 4.906. Íbúum hélt áfram að fækka og í lok árs 1974 voru þeir 4.396 áður en þeim fór aftur að fjölga. Þann 1. janúar 2022 voru 4.414 íbúar skráðir til heimilis í Vestmannaeyjum.

Eins og þið sjáið er fjölgar Eyjamönnum nokkuð frá því að fólk sneri aftur og fram til 1994. Þá fækkar þeim hratt fram að Hruni. Þarna er saga sem sýnir mikil neikvæð áhrif af kvótakerfinu, en framsal kvótans komst á skrið snemma á tíunda áratugnum. Og svo stoppar fækkunin við Hrunið, en í kjölfar þess hófst ferðamannastraumurinn sem hefur aukið atvinnutækifæri víða, ekki síst á Suðurlandi og þar með Vestmannaeyjum.

Líklega er besta leiðin til að sjá íbúaþróun Vestmannaeyja að setja upp graf sem sýnir Eyjamenn sem hlutfall af landsmönnum. Það sýnir vel þróun samfélagsins í samhengi við umhverfi sitt. Þegar línan fer upp fjölgar Eyjamönnum hraðar en landsmönnum. Og þegar hún fer niður halda Eyjamenn ekki í fjölgun landsmanna, vöxturinn kemur fram annars staðar en í Eyjum.

Við leyfum okkur að segja lengri sögu, byrjum 1880 og endum í fyrra:

Þarna má sjá að Vestmannaeyjar sem sjávarútvegsbær verður til á skömmum tíma, í raun aðeins á 25 ára tímabili í upphafi síðustu aldar. Fyrir þann tíma var stundaður sjálfsþurftarbúskapur í Eyjum, veiðar á fugli og útróður bænda.

Með vélvæðingu bátaflotans opnaðist tækifæri til útgerðar og sjávarbyggðir stækkuðu fjótt. Forsenda þess var líka afnám vistabandsins, en það var mjög rýmkað 1894. Þá streymdi fólk úr sveitunum, úr ófrjálsu einlífi vinnumennskunnar þar fólk fékk ekki annað fyrir vinnu sína en fæði og húsnæði, sem var oft ekki meira en rúm sem það deildi með öðrum. Og fólk flyktist í sjávarþorpin og seldi þar vinnu sína fyrir laun. Í sjávarbyggðunum gat fólk stofnað fjölskyldu, öðlast einhvert frelsi þótt kjörin væru kröpp.

Ef við tökum tímabilið frá gosi fram að kvótakerfinu 1983 fækkaði Eyjamönnum um 690 manns.

Við merkjum seinna stríðið inn á grafið því eftir það var rekin hér efnahagsstefna sem hafði það meginmarkmið að byggja upp samfélögin. Þá var landhelgin færð út og uppbygging togaraflotans og fiskvinnslu styrkt samkvæmt opinberum áætlunum. Á þessu tímabili, sem nær fram yfir Vestmannaeyjagosið, hélt íbúafjöldinn í Eyjum í við fjölda landsmanna.

Gosið varð áfall á þessu tímabili. Ef við tökum tímabilið frá gosi fram að kvótakerfinu 1983 fækkaði Eyjamönnum um 690 manns. Ef ekkert gos hefði orðið og fjöldi Eyjamanna hefði haldið í við fjölgun landsmanna hefðu 690 fleiri búið í Vestmannaeyjum þegar kvótakerfið skall á.

Kvótakerfið leiddi stöðnun og afturför yfir sjávarbyggðarnar. Fyrir kvótann var fjöldi útgerða í hverjum bæ og mikil þjónusta við þær. En eftir því sem kvótakerfið festi sig í sessi og einkum eftir að framsalið kvótans tók að færa kvótann frá smærri til stærri útgerða, og þá einkum örfárra auðhringja, tók sjábvarbyggðunum að hrörna hratt.

Ef við tökum tímabilið frá 1983 til 2008, frá kvóta að Hruni, þá misstu Vestmannaeyjar 2050 manns. Það er fjöldinn sem vantar í Eyjum, sé miðað við fjölgun landsmanna almennt. Kvótinn hafði því þrisvar sinnum meiri áhrif til fækkunar fólks í Eyjum en Vestmannaeyjagosið.

Eftir Hrun og með fjölgun ferðamanna hefur fólksfækkun í Eyjum hætt. Vestmannaeyjar eru náttúrulega frábær ferðamannastaður, með einstaka sögu og menningu og stórkostlega náttúru. Margföldun ferðamanna til Íslands eftir Hrun hefur því tekist að stöðva hrörnun samfélagsins sem kvótakerfið leiddi yfir byggðina.

Áhrif kvótakerfisins á sjávarbyggðir eru margskonar. Sumstaðar er kvóti seldur úr byggðalögunum svo minna verður eftir úr að spila. Samþjöppun kvótans á færri hendur fækkaði störfum en ekki síður vélvæðing vinnslunnar. Arðurinn af fækkun starfa fór þá til fárra, sem nýttu ávinninginn til að kaupa enn meiri kvóta eða til að fjárfesta í alls óskyldum rekstri í allt öðrum byggðum. Það á sérstaklega við um útgerðina í Eyjum. Kvótinn lokaði í raun atvinnugreininni svo ungt fólk sem vildi reyna fyrir sér í útgerð gat það ekki lengur. Fækkun útgerða dró síðan úr allskyns þjónustu við þær, netaverkstæðum, vélsmiðjum, verslunum sem seldu kost o.s.frv.

Samanlagt hafði þetta meiri áhrif á Vestmannaeyjar en gosið með allri þeirri eyðileggingu sem því fylgdi.

Greinin var fyrst birt á síðu Samstöðvarinnar.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: