„Ég vona að þið viljið lesa greinina sem hér fylgir. Í henni ræði ég m.a. stöðuna sem við í samninganefnd Eflingar stöndum frammi fyrir, þar sem að óforskömmuð og ólýðræðisleg tilraun er í gangi sem snýst um að hafa af Eflingarfélögum frelsið til að semja um eigin kjör. Þrátt fyrir að Efling sé langstærsta félag verka og láglaunafólks á landinu, þrátt fyrir að vinnuafl Eflingarfólks haldi sjálfu höfuðborgarsvæðinu gangandi á engu að síður að þröngva upp á samninganefnd Eflingar samning sem aðrir gerðu, samning sem er óviðunandi fyrir félagsfólk Eflingar, “ skrifar Sólveig Anna Jónsdóttir formaður Eflingar.
„Ég skora á ykkur að standa með okkur í samninganefnd Eflingar. Við stöndum ekki aðeins í baráttu um að ná ásættanlegum samningi fyrir Eflingarfólk, heldur snýst slagurinn einnig um það hvort að verkafólk megi hafa völd samfélagi okkar. Það er því sannarlega mikið í húfi.Við sem brutumst inn í stærstu hreyfingu launafólks á Íslandi, í óþökk hreyfingarinnar og valdamesta fólks landsins, í þeirri von að innbrotið myndi skila verkafólki höfuðborgarsvæðisins, félagsfólki Eflingar, raunverulegum ávinningi, höfum séð margar af vonum okkar rætast. Þeir kjarasamningar sem að barátta okkar fæddi skiluðu vinnuaflinu efnahagslegum árangri, mældum og útreiknuðum af sjálfri Kjaratölfræðinefnd. Því getur enginn neitað. Hvers vegna náðum við árangri? Vegna þess að áður en við létum til skarar skríða hugsuðum við vel og lengi um gömlu vopnin og fólkið sem mótaði þau. Fólk sem í krafti samstöðunnar horfðist í augu við eignaleysi sitt, og valdaleysið fætt af eignaleysinu, reis upp í stað þess að brotna frammi fyrir grimmd annara í þeirra garð og skapaði úr sjálfu sér stórkostlegan mátt sem umbreyttist í raunverulegt samfélagslegt vald. Fólk sem skyldi grundvallarmikilvægi sitt í verðmætaframleiðslu þjóðfélagsins og gat, vopnað þeim skilningi og því stolti sem hann veitir, breytt sjálfu sér í nokkuð sem andstæðingurinn, efnahagsleg og pólitísk valdastétt, varð einfaldlega að viðurkenna og koma til móts við; valdið til að skapa krísu með því að leggja niður störf. Verkafólk sem skildi að það hafði þetta vald, sem hafði hugrekkið til að beita því gat knúið á um byltingarkenndar þjóðfélagslegar umbætur og framfarir, m.a. frelsið til að semja sjálft um verð síns vinnuafls.
Við hugsuðum um þessar mögnuðu staðreyndir og tókum ákvörðun um að nota gömlu vopnin, þau sem skilað hafa mestum árangri. Og með því að nota þau komumst við áfram í baráttunni fyrir efnahagslegu réttlæti til handa því fólki sem þrátt fyrir grundvallarmikilvægi hafði verið dæmt til að hýrast út í horni óávarpað og lítt sýnilegt, áratugum saman, í nafni sjúkrar Þjóðarsáttar um óheft arðrán á alþjóðlegri stétt verka- og láglaunafólks á Íslandi. Þetta fólk færði sig úr horninu, myndaði nýja framvarðarsveit í íslenskri verkalýðsbaráttu og sannaði fyrir sjálfu sér og öðrum að enginn er betri í að berjast en þau. Mörgum er það mikið kappsmál að reka Eflingar-fólk aftur út í horn; hversu mikla upprisu vinnuaflsins geta menn eiginlega þolað? Hvað verður um „Frið“ á vinnumarkaði ef að samninganefnd Eflingar gefst ekki upp?“