Þingflokkur Miðflokksins er með sérstakan skemmtiþátt á midflokkurinn.is. Þeir birtast þar á fimmtudagskvöldum, enda heitir prógrammið þeirra: „Sjónvarpslausir fimmtudagar“. Bergþór Ólason, sem einn og sér telur helming þingflokksins, skrifar í Moggann um tilgang grínsins.
„Við vildum gera liðið ár upp með skemmtilegum hætti og gerðum því sérstaka áramótaútgáfu þar sem fram fór ársuppgjör Sjónvarpslausra fimmtudaga – SLF-verðlaunin. Verðlaun voru veitt í 75 flokkum hvorki meira né minna. Sum þeirra gegnsýrð af léttu gríni og kaldhæðni (sem þarf að verða meira af á nýju ári) en önnur voru án alls slíks. Öllum liðum fylgir rökstuðningur og létt umræða.
Sem dæmi voru veitt verðlaun fyrir sölumann ársins. Þau fóru lóðbeint til forstjóra bankasýslunnar sem seldi ekki bara Íslandsbanka eins og þekkt er orðið heldur líka bankasöluna til stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis. Svo var innviðaráðherra krýndur gjaldheimtumaður ársins af augljósum ástæðum og umhverfisráðherra titlaður vísindamaður ársins enda ætlar hann að banna rannsóknir í íslenskri efnahagslögsögu. „Villi ársins“ var svo auðvitað Vilhjálmur Birgisson verkalýðsleiðtogi, sem braut ísinn hvað samninga varðar á liðnu ári. Gjaldþrot ársins féll svo skuldlaust í skaut Reykjavíkurborgar.
Umræddur þáttur og allir hinir eru aðgengilegir á helstu hlaðvarpsveitum svo sem Spotify og Podbean en líka á heimasíðu Miðflokksins. Einnig má lesa sig í gegnum verðlaunaafhendinguna á vef Miðflokksins, www.midflokkurinn.is.
Við hlökkum til nýs árs, nýs þingveturs, fleiri sjónvarpslausra fimmtudaga og erum bara rétt að byrja.“