Fátækt og vonleysi í boði stjórnvalda
„Stjórnleysi, trúleysi og virðingarleysi er það sem svífur yfir vötnunum í dag,“ stendur í grein sem Inga Sæland skrifar í Mogga dagsins.
„Stjórnvöld láta sér á sama standa þótt fólk hafi hvorki í sig né á. Sama þótt fólk eigi ekki í nein hús að venda. Málin eru sett í nefnd. Með öðrum orðum, ábyrgðinni er fleygt út um gluggann. Þessir svokölluðu valdhafar hafa hvorki visku né getu til að takast á við þau verkefni sem þau voru kjörin til að sinna. Ég hlýt að draga þá ályktun fremur en að halda að þessir einstaklingar séu mannvonskan holdi klædd. Eitt er þó alveg víst að öll þessi yfirgengilega fátækt, allt þetta vonleysi tugþúsunda Íslendinga er í boði stjórnvalda. Það er nöturlegt til þess að vita að Alþingi Íslendinga, æðsta stofnun þjóðarinnar, skuli ekki sjá sóma sinn í því að rétta þeim hjálparhönd sem búa hér í sárri neyð, heldur þvert á móti múra enn rammgerðari fátæktargildru um þá sem þau voru kjörin til að vernda. Þetta er allt mannanna verk!“