Leiðari Moggans fjallar annars vegar um slælega frammistöðu borgaryfirvalda hvað varðar snjómokstur. Hins vegar um vandræðaástandið á Reykjanesbrautinni.
„Ástandið á Reykjanesbraut undanfarna sólarhringa hefur ekki síður verið sorgarsaga vanmáttar og pólitísks tómlætis. Reykjanesbraut var lokað – að miklu leyti að þarflausu – en við það trufluðust samgöngur við umheiminn og vandræðin í Leifsstöð urðu ekki til þess að auka hróður landsins sem ferðamannaáfangastaðar,“ segir í leiðaranum.
„Það var frekar aumlegt að heyra viðbárur Vegagerðarinnar að henni hefði verið ófært að ryðja brautina, þar sem hana skorti heimildir til þess að fjarlægja ökutæki sem þar sátu föst í vegi. Þetta er fjarstæða. Stjórnvöld hafa margvíslegar heimildir, þó sumar kunni að kosta atbeina lögreglu, til þess að fjarlægja tálmanir af þjóðvegum landsins, bæði til að tryggja öryggi og greiðar samgöngur.
Það kann að vera skiljanlegt að einstakar stofnanir ríkisvaldsins geti verið smeykar við slíkt, en þá kemur það einmitt í hlut hins pólitíska framkvæmdavalds, ráðherra, að taka af skarið. Það var með ólíkindum að Sigurður Ingi Jóhannsson innviðaráðherra kom hvergi við sögu í fréttum um helgina og fram á mánudag. Það var ekki fyrr en á þriðjudag, sem hann steig fram og greindi frá því að hann myndi tryggja að svona lagað gerðist ekki aftur. Hann átti að tryggja að það gerðist ekki.
Hið opinbera gegnir ýmsum grundvallarskyldum og þær verða bæði ríki og sveitarfélög að rækja. Sjálfsagt er skemmtilegra að fást við framtíðarstefnumótun og gæluverkefni af ýmsu tagi, en grunnþjónustan verður að ganga fyrir. Því það mun snjóa á Íslandi aftur,“ og þannig endar leiðarinn sem er best að eigna borgarstjóranum fyrrverandi, Davíð Oddssyni.