„Samt hefur hneyksli vikunnar snúist um 100 milljónir króna, sem gjafmildir þingmenn í fjárlaganefnd vilja styrkja sjónvarpsstöðvar á landsbyggðinni með, þótt raunar komi vart nema ein slík til greina,“ segir í leiðara Moggans í dag. Þar er fjallað um N4 málið.
„Það er sama hvar niður ber í málinu, það er allt eins undarlegt og hugsast getur og nær óskiljanlegt hvernig það fékk nokkurn framgang í þinglegri meðferð, sem aftur vekur ýmsar óþægilegar spurningar um viðtekin vinnubrögð þeirra sem nú sitja á þingi.
Eftir því sem næst verður komist var upphaf málsins það að framkvæmdastjóri sjónvarpsstöðvarinnar N4 á Akureyri, sem einkum sendir út kostað efni en sinnir ekki fréttaflutningi, sendi fjárlaganefnd erindi með ósk um 100 milljóna króna styrk, ella færi stöðin í þrot.
Þrátt fyrir að erindið hafi fyrir mistök ekki verið birt á vef Alþingis var þessari bón vel tekið í nefndinni, sem átti öllum að óvörum ekki í neinum vanda með að finna 100 lausar milljónir. Svo skemmtilega vill til að mágur framkvæmdastjórans er einn af níu nefndarmönnum. Hann tók raunar ekki þátt í afgreiðslu málsins, en skrifaði þó undir nefndarálitið um að samþykkja skyldi tillöguna.
Að baki ákvörðuninni lá engin vinna, aðeins tilfinning nefndarmanna. Þegar fundið var að þessu hafði Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, nefndarformaður og 3. þingmaður Norðausturkjördæmis, það helst til varna að auðvitað myndi nefndin ekki úthluta styrknum, það kæmi í hlut menningarmálaráðherra, samkvæmt úthlutunarreglum. Ekki verður þó séð að ráðherrann hefði mikið svigrúm, enda varla til þess ætlast að úthlutunin byggðist aðallega á geðþótta ráðherrans,“ segir í leiðara Moggans.
„Allt er þetta flaustur Alþingi til vansæmdar og ekki til þess fallið að auka traust til þess. Sérstaklega á það auðvitað við um þingmennina einn og átta í fjárlaganefnd, sem virtust ekkert sjá að þessu og héldu uppi vörnum sem voru með miklum ólíkindum. Kannski þeim hafi ekki fundist muna um þessa örlitlu skógjöf miðað við veisluna alla. En það eru ekki alltaf jólin og þingmenn eiga ekki að leika jólasveina,“ þannig endar leiðarinn.