„Framkoma þingmanna með málþófi og trúnaðarbresti er ljótur blettur á starfi Alþingis. Hvergi í nálægum löndum eru þingtíma löggjafans jafn illa varið og á Alþingi Íslendinga og nágrannar okkar undrast vinnubrögðin. Nú þegar líður að jólum er mikilvægt að við nýtum tímann sem best til að ná að klára þingmál tímalega. Ég heyri, virðulegur forseti, að þingmenn undrast það að fleiri málum verði ekki lokið fyrir jól en raun ber vitni um. Þeir þingmenn hafa klukkustundum saman þvælt út og suður undir liðnum fundarstjórn forseta og staðið í málþófi meira og minna í haust. Það er eitt að þingfulltrúi komi og geri athugasemdir við það sem betur má fara í þinginu en að allir þingmenn flokka komi jafnvel tvisvar upp undir þeim lið til að endurtaka það sem allir hinir hafa sagt er illa farið með tíma þingsins og það á líka við í almennum umræðum,“ sagði Ásmundur Friðriksson Sjálfstæðisflokki á Alþingi í dag.
„Við sem sitjum hér kosin af þjóðinni erum löggjafarvaldið. Samkvæmt stjórnarskrá og þingskapalögum er hlutverk þingmanna að setja lög og halda uppi eðlilegum skoðanaskiptum í þingsal. Engu að síður eru ákveðnir flokkar og þingmenn sem kjósa að sleppa því að sinna þessu hlutverki sínu og stunda málþóf. Merkilegast er að sá flokkur sem hefur minnstan áhuga á því að sinna skyldum sínum er einmitt flokkur sem hrópar upp yfir sig að vinnubrögð annarra séu ekki nógu fagleg eða ígrunduð. Í þeirra huga eru reglurnar fyrir aðra en þá.
Framkoma margra þingmanna er löngu orðið stjórnlaus. Er ekki kominn tími til þess að við tökum þingmenn nágrannalandanna til fyrirmyndar og hættum að misbjóða þjóðinni með því að koma í veg fyrir eðlilega vinnu þingmanna með málþófi og tafavinnu í nefndum og þingsal?“