- Advertisement -

Fjárfestingar lækka veiðigjöldin

Okkur datt ekki í hug, leyfi ég mér að segja, að túlka mætti þau lög þannig…

…þá myndi það um leið þýða að það væri ekki bara hann sem fengi skattalegar ívilnanir heldur allir aðrir sem greiða veiðigjöld.

„Það var mikil jákvæðni gagnvart þessu frumvarpi, sérstaklega vegna þess að þarna var lögð mikil áhersla á grænar fjárfestingar og ívilnanir þegar fjárfest væri í þá átt. Í efnahags- og viðskiptanefnd var aldrei, alla vega ekki á þeim fundum sem ég sat, við vinnslu þessa frumvarps talað um veiðigjald eða þau lög í því sambandi. Minn skilningur var sá, og stuðningur Samfylkingarinnar var við það markmið frumvarpsins og laganna, að hvetja ætti til fjárfestinga í heimsfaraldri þar sem efnahagslífið var ekki í góðum málum og einkum og sér í lagi að hvetja til grænna fjárfestinga. Okkur datt ekki í hug, leyfi ég mér að segja, að túlka mætti þau lög þannig að um leið og búið væri að hvetja útgerðarmann til að fara út í fjárfestingar, og hann fengi þar skattalegar ívilnanir, þá myndi það um leið þýða að það væri ekki bara hann sem fengi skattalegar ívilnanir heldur allir aðrir sem greiða veiðigjöld yfir höfuð vegna þess að reikniverkið í kringum veiðigjöldin er þannig hannað,“ sagði Oddný Harðardóttir Samfylkingu á Alþingi.

„Mér finnst, frú forseti, augljóst með bráðabirgðaákvæðið sem samþykkt var hér í apríl 2021, um hvata til fjárfestinga, að líta eigi fram hjá því þegar veiðigjöldin eru ákveðin. Það var vilji löggjafans, það var andi laganna og það getur hver maður séð sem les frumvarpið, nefndarálitin og þeir sem voru í efnahags- og viðskiptanefnd muna eftir umræðunum þar. Þess vegna eru það ákveðin vonbrigði að inn í þingið núna komi það frumvarp sem hæstvirtur matvælaráðherra var að mæla fyrir áðan sem rennir stoðum undir þá túlkun að hvatningin til fjárfestinga í útgerð á erfiðum tímum í heimsfaraldri eigi að hafa áhrif á lækkun veiðigjalda. Það var alls ekki vilji löggjafans. Mér finnst það vera dagljóst. Þess vegna hljótum við að setja stórt spurningarmerki við þá framkvæmd sem virðist eiga að festa í sessi með frumvarpinu sem við ræðum hér, að láta bráðabirgðaákvæðið sem samþykkt var í apríl 2021 hafa áhrif á ákvörðun veiðigjalda,“ sagði hún.

„En ég vil segja, og ég vona að ég hafi komið máli mínu nokkuð skýrt á framfæri, að ég tel að bráðabirgðaákvæðið sem samþykkt var við lög um tekjuskatt í apríl 2021 til að hvetja til fjárfestinga hafi ekki verið hugsað til þess að lækka veiðigjöld. Það var ekki það sem við vorum að gera. Við vorum að hvetja til fjárfestinga og einkum grænna fjárfestinga í miðjum heimsfaraldri þegar við höfðum áhyggjur af því að efnahagslífið væri að fara á hliðina og samþykktum hér í þessum sal alls konar ívilnanir til þess að reyna að halda hjólum samfélagsins gangandi á þeim erfiðu tímum. Þetta, að hvetja til fjárfestinga, var eitt af því. Það var aldrei minnst á veiðigjöld í því sambandi,“ sagði Oddný Harðardóttir.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: