Davíð Oddsson, fyrrverandi borgarstjóri, skrifar um stöðu Reykjavíkur og reyndar Parísar líka í leiðara dagsins. „Árið 2014 var örlagaríkt fyrir París og Reykjavík því að þá tóku nýir borgarstjórar við í þessum höfuðborgum, sósíalistinn Anne Hidalgo í París og samfylkingarmaðurinn Dagur B. Eggertsson í Reykjavík. Skuldirnar í París hafa síðan tvöfaldast og nú er rætt í ríkisstjórn Macrons um hvort skipa þurfi París eftirlitsmann.“
Og áfram:
„Þróun skulda er svipuð hjá Degi en munurinn er þó sá að skuldir Reykjavíkur á íbúa eru um þrítugfaldar skuldir Parísar. Sé aðeins horft til skulda borgarsjóðs sjálfs eru skuldir Reykjavíkur á íbúa samt um 12-faldar á við skuldir Parísar. Samt er rætt um skelfilega stöðu þar en hér fellur borgarstjóri í hverjum kosningum á fætur öðrum og fær ævinlega aðstoð við að endurreisa völd sín og halda áfram skuldasöfnuninni. Nú síðast frá flokki ráðherra sveitarstjórnarmála.
En það er fleira líkt með París og Reykjavík. Þar er rætt um gríðarlega fjölgun embættismanna, sem er nokkuð sem Dagur hefur einnig gert, og þar hefur peningum skattgreiðenda ítrekað verið sóað í vafasöm verkefni. Þá er kvartað undan því að París hafi orðið skítugri, ljótari og hættulegri í tíð núverandi borgarstjóra, sem skýri fólksfækkun á síðustu árum. Í tíð Dags hefur þróunin í ásýnd borgarinnar verið svipuð, en að vísu hefur ekki orðið fólksfækkun í Reykjavík. Fjölgunin er þó mun minni en annars staðar á landinu.
Hvenær ætli yfirvöld sveitarstjórnarmála þurfi að grípa inn í stjórn höfuðborgarinnar? Að óbreyttu styttist í það.“