Þorsteinn Sæmundsson stjörnufræðingur skrifar stutta en góða grein í Moggann í dag. Hún er svona:
„Skiptar skoðanir eru um það hve mikinn þátt mannkynið eigi í hækkuðu hitastigi hér á jörðu. Sjálfur hallast ég að því að þessi þáttur vegi býsna þungt, en vil þó engan veginn fullyrða það. Hitt þori ég að fullyrða, að mannlegar aðgerðir til að hamla gegn hitahækkuninni eru dæmdar til að mistakast. Í fyrsta lagi eru þær þjóðir, sem mestri loftmengun valda, ekki virkir þátttakendur í aðgerðunum. Í öðru lagi er engin von til þess að aðrar þjóðir fylli upp í skarðið, því að það myndi ógna hagvexti þeirra. Að við Íslendingar tökum þátt í þessum aðgerðum er hreinasta hneyksli, eins og ég hef áður fjallað um í blaðagrein „Barnaskapur og sjálfsblekking“, Mbl. 2.4. 2022). Um 90% af orkunotkun okkar eru laus við alla mengun. Við stöndum best allra þjóða í því efni. Nú síðast berast þær fréttir af umhverfisráðstefnunni í Egyptalandi að við verðum hugsanlega skuldbundnir til að greiða í sjóð háa upphæð, jafnvel milljarða á ári hverju, í syndaaflausn vegna mengunar í fortíðinni, mengunar sem við áttum svo til engan hlut að. Hvar endar þessi vitleysa? Skynsamlegra væri að verja fé í að búa sig undir þær breytingar sem hækkað hitastig mun hafa í för með sér.“